Margir sýna Borgartúninu áhuga

Horft yfir hús Hagstofunnar og Borgartún 21 frá þakíbúð númer …
Horft yfir hús Hagstofunnar og Borgartún 21 frá þakíbúð númer 701. mbl.is/Árni Sæberg

„Það mættu um hundrað manns á opið hús fyrstu sýningarhelgina og svo um fimmtíu manns helgina þar á eftir,“ segir Magnús Magnússon, einn mannanna sem byggja fjölbýlishús í Borgartúni, um áhugann.

Þegar Morgunblaðið kom við í Borgartúni 24 laugardaginn 14. október voru margir að skoða en alls eru 64 íbúðir í húsinu sem er við hringtorg á gatnamótum Borgartúns og Nóatúns. Þar er bílakjallari með 39 stæðum en á jarðhæð verður verslun og þjónusta. Atvinnurýmin á jarðhæð eru öll seld, að sögn Magnúsar, og 17 íbúðanna seldar.

Gríðarleg eftirspurn skapaðist á fasteignamarkaði eftir að Seðlabankinn lækkaði meginvexti í 0,75% í nóvember 2020. Það var auðvitað ekki dæmigert tímabil og upplifði Magnús þá mikla sölu í öðrum verkefnum. Spurður hvernig sé að fá 150 manns í opið hús miðað við mestu lætin segist Magnús vera ánægður með viðtökurnar.

Horngluggar einkenna íbúð 702. Þaðan má horfa út á sundin …
Horngluggar einkenna íbúð 702. Þaðan má horfa út á sundin og Kirkjusandinn. mbl.is/Árni Sæberg

Með besta móti

„Það þykir virkilega gott að fá 150 manns og þótti þá líka. Munurinn var sá að við vorum að fá mikið af „blindum tilboðum“ þegar lætin voru sem mest,“ segir Magnús og vísar til þess þegar fólk keypti íbúðir óséðar á árunum 2021 og 2022.

„Þetta er með því betra sem við höfum séð. Það er mikill áhugi en við gefum okkur fjóra mánuði til afhendingar. Húsið er því ekki komið á þann stað að gefa réttu myndina af þeim gæðum sem við ætlum að skila. Við ákváðum samt að fara af stað og setja íbúðirnar í sölu,“ segir Magnús en áformað er að afhenda þær í febrúar og mars.

THG arkitektar hanna húsið sem er með opnu rými fyrir …
THG arkitektar hanna húsið sem er með opnu rými fyrir miðju. mbl.is/Árni Sæberg

Með nokkra flokka

„Íbúðirnar eru afhentar fullbúnar með parketi. Við erum með þrjár mismunandi gerðir af innréttingum og tröppum okkur upp í gæðastaðli eftir því sem ofar dregur í húsinu. Við skilum þakíbúðum með vínkæli, steini í borðum og fiskibeinaparketi sem er dýrari frágangur og þar af leiðandi er líka hærra verð á þeim einingum. Við ákváðum að fara mjög langt í gæðum og skilum sem kemur kannski ekki í ljós fyrr en undir lok framleiðslunnar,“ segir Magnús.

Hann staðfestir að í boði er að sameina tvær efstu þakíbúðirnar, íbúðir 701 og 702, en ásett verð þeirra er 179,9 og 159,9 milljónir króna. Íbúðirnar tvær eru 147,9 og 134,3 fermetrar.

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 9. nóvember. 

Byggingin setur mikinn svip á Borgartúnið.
Byggingin setur mikinn svip á Borgartúnið. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert