Verulegar áhyggjur af kjötframleiðslu

Hækkun fjármagnskostnaðar, hækkun fóðurs og samkeppni við innfluttar vörur, valda …
Hækkun fjármagnskostnaðar, hækkun fóðurs og samkeppni við innfluttar vörur, valda samdrætti í kjötframleiðslu. Samsett mynd/mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, segir að samdráttur í kjötframleiðslu sé verulegt áhyggjuefni.

Kjötframleiðsla í nóvember 2023 dróst saman um 10% frá fyrra ári en alls voru framleidd 1.798 tonn í mánuðinum.

„Kjötframleiðsla er að dragast saman í öllum kjötgreinum,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Endurtekin stef

Vigdís segir að samdráttur í kjötframleiðslu megi að stórum hluta rekja til þeirra áhrifaþátta sem Bændasamtökin hafa vakið athygli á allt síðasta ár.

„Hækkun fjármagnskostnaðar, hækkun fóðurs og þessi samkeppni sem íslenskar afurðir eiga við innflutninginn,“ segir Vigdís.

Hún tekur kindakjöt sem dæmi og segir að minni framleiðsla á því eigi sér margar skýringar.

„Það er fækkun á vetrarfóðruðum, svo er riðan sem kemur upp síðustu tvö árin. Það er gríðarlegt högg sem kemur á greinina þegar það er verið að skera svona ofboðslega stóra stofna, hátt í 600-700 kindur.“

Innflutningur og stríð hafa áhrif

Hvað varðar framleiðslu á nautakjöti segir Vigdís að mikill innflutningur á nautakjöti síðustu ár hafi haft veruleg áhrif á framleiðslu innanlands. Sömuleiðis hafi hækkandi fóðurkostnaður vegna stríðsins í Úkraínu haft mikil áhrif á framleiðslugreinina.

„Sama gildir með kjúklinginn þrátt fyrir að kjúklingurinn standi mjög vel í sinni markaðshlutdeild gagnvart neytendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert