Risastór dróni nýttur til að kortleggja jarðveginn

Sérfræðingar eiga við jarðvegsdrónann sem eins og sjá má er …
Sérfræðingar eiga við jarðvegsdrónann sem eins og sjá má er algjört ferlíki. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hóf í gær kortlagningu jarðvegs í Grindavík með sérstakri jarðsjá. Jarðvegsdróni var fenginn til landsins ásamt sérfræðingum frá Hollandi en ráðgert er að fljúga jarðsjánni í hnitakerfi yfir bæinn.

Oddur Sigurðsson Hagalín, jarðtækniverkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir í samtali við Morgunblaðið að verkefnið taki um þrjár til fjórar vikur í framkvæmd. Hann vonast til að fyrsta áfanga ljúki í vikunni – að ná helstu leiðum inn og út úr bænum til að styðja við undirbúning verðmætabjörgunar.

Gögnin greind í Svíþjóð og sett í þrívídd í Póllandi

Segir Oddur að gögnin verði send út til Svíþjóðar þangað sem framleiðandi jarðsjárinnar muni hjálpa til við að greina þau og þaðan verði þau send til Póllands þar sem þeim verður komið á þrívítt form.

Ráðgert er að fljúga jarðsjánni í hnitakerfi yfir bæinn.
Ráðgert er að fljúga jarðsjánni í hnitakerfi yfir bæinn. Ljósmynd/Vegagerðin

300 metra raflína strengd yfir heita hraunbreiðuna

Þá strengdi Landsnet 300 metra raflínu yfir hraunbreiðuna norðan Grindavíkur í gær en áður höfðu tvö 18 metra há möstur verið reist hvort sínu megin við hraunið en stofnstrengur sem lá undir hrauninu gaf sig í fyrrinótt svo að rafmagnslaust varð í bænum.

Reiknað er með því að rafmagn verði komið á í dag. Varaaflsvélar Landsnets voru tengdar við bæinn en þar sem önnur þeirra varð fyrir bilun var sú þriðja flutt inn í bæinn í gærkvöldi. Þegar blaðið fór í prentun var varaaflsvélin komin í samband og farin að skaffa orku inn á dreifikerfið. Engin fordæmi eru fyrir aðgerðum sem þessum hér á landi.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert