Alltaf varhugavert að senda menn inn

Jón Viðar Arnþórsson slökkviliðisstjóri segir að ávallt þurfi að fara …
Jón Viðar Arnþórsson slökkviliðisstjóri segir að ávallt þurfi að fara varlega í að senda slökkviliðsmenn inn í brennandi hús þar sem margar hættur geti leynst. mbl.is/Arnþór

„Við vitum ekki hver orsök brunans er enn þá, lögreglan er komin með rannsóknina,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um nýafstaðinn stórbruna við Fellsmúla á fimmtudagskvöld.

Sagði Jón Viðar í viðtali hér á vefnum á fimmtudagskvöldið að brunahólf hússins hefðu skilað miklu og ekki komið upp eldur í öðrum bilum atvinnuhúsnæðisins, sem í kviknaði, en þeim tveimur ystu. Reykur hefði borist um hin bilin en eldurinn ekki náð þangað.

„Þessir veggir sem voru þarna gerðu mikið gagn,“ segir slökkviliðsstjóri, „það sem hjálpaði okkur mikið í þessum bruna var sú áætlun sem við lögðum upp með, að reyna að halda eldinum í þessum tveimur bilum og líka að missa eldinn ekki yfir í Hreyfilshúsið,“ segir Jón Viðar og bætir því við að veðrið á fimmtudagskvöldið hafi einnig verið slökkviliðinu í hag.

Jón Viðar Matthíasson leit yfir brunann við Fellsmúla á fimmtudaginn …
Jón Viðar Matthíasson leit yfir brunann við Fellsmúla á fimmtudaginn með mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veitur stýri vatnsflæði

„Þetta er svona stóra myndin í þessum bruna,“ heldur hann áfram og er spurður út í bið slökkviliðs á vettvangi eftir að komast í vatn til slökkvistarfa. „Vatnsbiðinni lauk fljótlega þegar við lögðum aðrar lagnir í brunahana skammt frá hringtorginu hjá Suzuki-umboðinu,“ segir Jón Viðar og á við hringtorg við Skeifuna 17.

Segir hann aðspurður að brunahanar á höfuðborgarsvæðinu séu almennt í óaðfinnanlegu ásigkomulagi og þjóni slökkviliði vel, vandræði við vatnsaðföng heyri til algjörra undantekninga. „Í svona brunum getum við líka óskað eftir því að Veitur stýri flæði vatns inn á svæði sem hefur oft verið gert og skilað góðum árangri.“

Frá vettvangi brunans á fimmtudagskvöldið.
Frá vettvangi brunans á fimmtudagskvöldið. mbl.is/Arnþór

Jón Viðar segir stóra lærdóminn við brunann í Fellsmúla vera hve mikilvægt sé í kröftugum eldsvoða að taka slökkvistarfið að utanverðu til að byrja með. „Það þarf alltaf að fara varlega með að senda menn inn, það er of hættulegt, getur hrunið ofan á þá og þvíumlíkt. Við náðum að senda menn örlítið inn undir lokin þegar þakið var fallið og vorum þá að finna hreiður og reyna að slökkva, svo þetta gekk nú allt framar vonum,“ segir hann.

Hefur verið mikið um slys á slökkviliðsmönnum við slökkvistarf síðustu áratugi?

„Nei, það hafa verið einhver minni háttar atvik, en við höfum verið mjög lánsöm, það verður að segjast alveg eins og er, og okkar varðstjórar og stjórnendur hafa verið mjög meðvitaðir um það að gæta alltaf að öryggi í svona aðgerðum sem öðrum,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert