Er hámarkið 50 hælisleitendur eða 500 á ári?

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra lét þau orð falla í Dagmálum fyrir skemmstu að Ísland gæti tekið við allt að 500 flóttamönnum á ári. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra dró nokkuð í land í viðtali skömmu síðar.

Í Spursmálum eru þeir Logi Einarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurðir út í þessar fjöldatölur en erfitt er að fá stjórnmálamenn til að kveða skýrt á um það hvert bolmagn íslensks samfélags er í þessum efnum.

„Við höfum ekki þau gögn sem við þurfum til þess að segja hvaða tala það er sem við þurfum að taka á móti t.d. vegna alþjóðlegra skuldbindinga, við höfum það fyrir það fyrsta ekki. En ég held að Guðrún Hafsteinsdóttir sé nær þessu,“ svarar Logi þegar gengið er á hann.

Áfram undir stjórn stjórnlauss kerfis

Hvað getum við tekið á móti mörgum? Hvað má þetta kosta? Mér finnst mjög einkennilegt að vera hérna með tvo alþingismenn, almenningur er að hlusta og þau eru engu nær um það hvað...

„Ef ég fengi aðeins að tjá mig þá gæti ég upplýst fólk um það,“ svarar Sigmundur Davíð.

Gjörðu svo vel.

„Þakka þér fyrir. Ég geri mér grein fyrir að þú hefur lagt mikið á þig við að fá svör frá Loga. En við sjáum hvernig þetta verður ef Samfylkingin tekur við, þetta heldur bara áfram undir stjórn stjórnlauss kerfis. Talan 500 er fráleit tala að mínu mati enda viðurkenndi Guðrún að hún hefði bara gripið hana úr lausu lofti.

Hún er hins vegar lýsandi fyrir það hversu óstjórnin er orðin mikil af því að menn eru farnir að sjá 5000, þá segja þeir kannski að 500 sé betra í samanburði við það. 50 væri miklu nær lagi. Á árunum 1995 til 2019, frá 1995 þegar lögin tóku gildi um kvótaflóttamenn þá tóku við við 24 kvótaflóttamönnum að meðaltali. Það var fjallað um þetta í blöðunum og það var tekið vel á móti fólkinu, það var aðlagað, það fékk húsnæði og svo framvegis.

Með stórhættulegum og fráleitum lögum sem við í Miðflokknum börðumst einir gegn um svokallaða samræmda móttöku eiga núna mörg þúsund manns á ári rétt á því sama og 24 höfðu rétt á áður en þessi lög tóku gildi?“

Er það ekki vegna alþjóðlegra skuldbindinga?

„Nei, þarna er verið að rugla saman, 24 voru kvótaflóttamenn,“ skýtur Logi inn í.

Og Sigmundur Davíð heldur áfram.

„Já 24 voru kvótaflóttamenn en svo voru nánast engir aðrir. Það voru nánast engir aðrir lengst af vegna þess að Ísland er eyja í Norður-Atlantshafi og menn koma ekki beint til Íslands heldur í gegnum önnur lönd. Svo það þarf að fara að nota aftur Dyflinarreglugerðina og annað sem gerði okkur kleift að hafa stjórn á okkar eigin landamærum.

Nú er þetta orðið algjörlega stjórnlaust, þessi lög voru samþykkt. OG blessaðir sjálfstæðismennirnir, eins og við reyndum að útskýra fyrir þeim þegar þeir voru með litla útlendingafrumvarpið sitt manstu sem var alltaf þynnt út í hvert skipti og þeir voru búnir að leggja það fram fimm sinnum.“

Þarna ertu að vísa í frumvarp Jóns Gunnarssonar?

„Upphaflega Sigríðar Andersen en var svo ekki svipur hjá sjón því þeir þynntu það sífellt út. OG þeir tóku þennan slag ásamt Framsókn og VG um þessa samræmdu móttöku. Við reyndum að útskýra fyrir þeim, hvað eruð þið að gera? Ætlið þið að setja stóran rauðan hring í kringum Ísland og gera að enn meiri söluvöru án þess að VG hleypi í gegn litla málinu ykkar?

Þá kom alltaf svarið: það er búið að lofa okkur því sko, að ef við afgreiðum þetta þá fari þetta í gegn. Svo gekk það auðvitað aldrei eftir nema í lokin jú, þá gerðu þeir enn eina útþynninguna og þá leyfði VG að klára það í þinginu. Og nú eru þeir komnir með litla útlendingafrumvarp sitt númer tvö.

Og hvernig fór með það. Hér var blásið til blaðamannafundar. Heildaráætlun í útlendingamálum. Ríkisstjórnin hefur náð saman um aðgerðir til að taka á þessu ástandi. Svo var þetta eingöngu einhver froða.

Svo var þetta óskalisti Vinstri grænna á nokkrum blaðsíðum. Svo kom í lokin: svo ætlum við að klára þetta mál sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera að bögglast með undanfarin ár. Hvað gerist svo um leið og búið er að samþykkja þessa heildaráætlun. Þá mætir þingflokksformaður, reyndar byrjar þingflokkurinn á því að fresta því að afgreiða þetta og svo kemur þingflokksformaðurinn og lýsir því yfir að þeir geti ekki afgreitt þetta óbreytt.

Hversu lengi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að láta draga sig á asnaeyrunum í þessu máli. Og það er ekki nóg með það, stundum held ég að hann hafi ekki nógu miklar áhyggjur af þessu. Þessi útlendingalög urðu til undir forystu Sjálfstæðisflokksins 2016. Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í þessari samræmdu móttöku. Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund síðast þar sem nokkrir vaskir menn reyndu að koma smá viti inn í útlendingastefnuna.

Málið var aftur tekið inn í sal að hætti Evrópusambandsins til þess að fá rétta niðurstöðu. Allar tillögur þeirra voru felldar. Það mátti ekki einu sinni leiðrétta málfræðina,“ segir Sigmundur Davíð, sem komst að lokum að.

Viðtalið við Loga og Sigmund Davíð má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert