Eina aðkomuleiðin um Nesveg

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kveður verkefnastöðuna svipaða og í …
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kveður verkefnastöðuna svipaða og í síðasta gosi og mönnun með ágætum. Ekki hafi ferðamenn gert neina skráveifu svo honum sé kunnugt um. mbl.is/Óttar

„Ég hef ekki heyrt af vandræðagangi,“ svarar Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, inntur eftir því hvort erlendir ferðamenn og aðrir gestir í nágrenni gosstöðva hafi sýnt af sér tilhlýðilega varkárni og fylgispekt við reglur yfirvalda.

„Þetta hefur gengið með svipuðum hætti og í síðasta gosi, þetta eru sömu verkefni og áður að meginefni til,“ segir hann um verkefni lögreglu síðan gosið hófst í gærkvöldi sem fyrst og fremst hafi falið í sér að fylgjast með framvindu hraunsins, „inn við Svartsengi og við austasta varnargarðinn norðan við Grindavík. Í augnablikinu er eina aðkomuleiðin inn og út úr Grindavík um Nesveg,“ segir lögreglustjóri.

Mönnun með besta móti

Hraun rann yfir Grindavíkurveg í nótt og lögregla hefur að sögn Úlfars lokað Suðurstrandarvegi. „Það er áætlað að séu um 900 metrar þar til hraun nær til Suðurstrandarvegar og ætli það séu ekki um 200 metrar í Njarðvíkuræðina. Það er svo sem ekki löng vegalengd en menn tala um að eitthvað hafi dregið úr hraunrennsli og virkni gossins,“ segir hann.

Verkefnastaðan í dag verði sú sama og frá upphafi goss, „við erum ágætlega mönnuð, bæði inni í samhæfingarstöð og eins í aðgerðastjórnstöð í Reykjanesbæ. Við drógum aðeins úr fjölda viðbragðsaðila í nótt og svo mæta menn bara ferskir til vinnu í dag, vonandi gengur þetta gos fljótt yfir með svipuðum hætti og síðast svo nú verðum við bara að bíða og sjá til,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert