Einar kosningar meira en nóg

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi.
Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Árni Sæberg

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og forsetaframbjóðandi, lætur engan bilbug á sér finna þó Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi í gær tilkynnt að hún myndi láta slag standa og bjóða sig fram í embætti forseta Íslands.

„Það er bara áfram gakk,“ segir Helga, í samtali við mbl.is.

Verður kosningaskrifstofa hennar opnuð á Grensásvegi 8 á morgun klukkan 16 og mun hún ávarpa viðstadda.

Hefur reynsluna og þekkinguna

„Ég var alveg búin að gera upp við mig að það væri ljóst að það yrðu mjög frambærilegir kandídatar að sækjast eftir þessu embætti. Hversu háir og lágir þeir eru, það snertir mig ekki,“ segir Helga og bætir við:

„Það breytir ekki því að mér finnst ég hafa reynsluna og þekkinguna. Sumt hefur hún meira af og sumt hef ég kannski meira af.“

Nóg að fara í forsetakosningar

Spurð hvort framboð forsætisráðherrans hafi komið henni á óvart svarar Helga:

„Ég hefði haldið að það væri nóg fyrir þetta land að fara í forsetakosningar. Það hefði verið mitt mat en svona er þetta og þá er það bara þannig.“

Hún býður þó Katrínu velkomna í framboðsbaráttuna.

„Það eru komnir fram frambjóðendur sem telja sig geta sinnt þessu verkefni og ég vil meina að ég sé ein af þeim. Á endanum er það þjóðin sem kýs, hvaða einstaklingur stendur í brúni sama hvað er og klárar verkin, og er til staðar. Ég er þar og það þurfa aðrir að svara fyrir hvort þeir séu þar líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert