Ekki hræddur og býður Katrínu velkomna til leiks

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor og forsetaframbjóðandi, segist ekki vera hræddur við framboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hann segir það ánægjulegt að fá enn annan verðugan frambjóðanda í leikinn.

Katrín til­kynnti fram­boð sitt til embætt­is for­seta Íslands fyrr í dag og hef­ur beðist lausn­ar frá embætti sem for­sæt­is­ráðherra og sagt af sér formennsku í Vinstri­hreyf­ing­unni – grænu fram­boði. Katrín og Baldur þykja bæði sigurstrangleg.

„Mér finnst bara gaman að fá einn verðugan meðframbjóðanda í viðbót í frambjóðendahópinn,“ segir Baldur í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við framboði Katrínar.

Ekkert hræddur við framboð Katrínar

Ertu hræddur?

„Ekki til. Vegna þess að þegar fólk fór að leita til okkar Felix í upphafi árs var tvennt sem við vildum leggja til grundvallar áður en við myndu taka þessa ákvörðun, annars vegar að við værum búnir að hugsa málefnalegan grundvöll fyrir framboðið og hins vegar að það væri breiður stuðningur,“ svarar Baldur.

Hann segir sig og sitt framboðsteymi hafa lagt fram ítarlegan málefnapakka sem innihaldi þverpólitísk málefni.

Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigi ekki að gera lítið úr frambjóðendum

„Og ég bíð í raun spenntur og finnst gaman að það fer að dragast upp mynd af því núna hverjir eru að bjóða sig fram. Og mér finnst ánægjulegt að sjá hversu margir öflugir frambjóðendur hafa komið fram,“ bætir hann við og tekur fram að það eigi ekki að gera lítið úr þeim sem vilji bjóða sig fram til forseta lýðveldisins.

„Mér finnst alveg dásamlegt að það séu margir að bætast við þennan hóp, þetta er lýðræðisveisla.“

Síðasta könnun Baldri í hag

Heldurðu að þú getir enn unnið þessar kosningar?

„Það er nú langt í kosningar en síðasta könnun var okkur mjög hagstæð. Það var gaman að sjá það. En það er nú öll kosningabaráttan eftir. Við eigum eftir að heyra meira frá frambjóðendum og hvað þeir standa fyrir og skiptast á skoðunum í þessari kosningabaráttu,“ svarar hann.

Samkvæmt nýlegri könnun Prósents vilja 27% Íslendinga að Bald­ur verði næsti for­seti en 17% að Katrín verði það. Hún hafði samt ekki kynnt framboð sitt þegar könnunin var gerð.

Baldur tekur fram að hann hlakki til að hefja hringferð um landið og eiga samtal við fólkið í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert