Ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi

Ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar í janúar skorti fullnægjandi rökstuðning að mati …
Ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar í janúar skorti fullnægjandi rökstuðning að mati úrskurðarnefndar. mbl.is/Sigurður Bogi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 8. mars úr gildi en í henni fólst höfnun byggingarleyfisumsóknar um 126,5 fermetra viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum við hús þar í bænum.

Kærði umsækjandi höfnunina og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Umsókn sína lagði hann fram árið 2018 og sneri hún að 150 fermetra íbúð. Við bygginguna hefði áætlað byggingarmagn farið úr 200 í 350 fermetra og nýtingarhlutfall úr 0,26 í 0,46.

Á fundi skipulagsráðs í ágúst sama ár var lögð fram tillaga eftir breytingar og kom hún til móts við hluta innsendra athugasemda. Eftir að kærandi óskaði eftir útgáfu byggingarleyfis gerði byggingarfulltrúi athugasemdir við erindið sem ekki var svarað og rann leyfið út.

Ekki í samræmi við lagaákvæði

Árið 2021 var lögð fram uppfærð tillaga sem grenndarkynna þurfti að nýju samkvæmt skipulagslögum. Sótt var um að nýju árið 2022 og að lokum í október í fyrra, en þá fyrir 126,5 fermetra. Skipulagsráð samþykkti að erindið yrði grenndarkynnt á grundvelli skipulagslaga. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 18. desember og vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Á fundi skipulagsráðs í janúar var málið tekið fyrir ásamt umsögn skipulagsdeildar og tillögunni í kjölfarið hafnað þar sem hún væri ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 hvað varðaði nýtingarhlutfall. Vísaði kærandi til þess að í sjö ár hefði hann reynt að fá byggingarleyfi á umræddri lóð og hefði teikningum margsinnis verið breytt til að koma til móts við kröfur nágranna og bæjarins.

Kópavogsbær taldi tillöguna ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040. „Þrátt fyrir að vera ekki skýrt frekar eða nokkur rök færð fyrir niðurstöðunni hafi hún verið staðfest á fundi bæjarstjórnar 13. febrúar 2024,“ skrifar kærandi. Hann telur að engin skilyrði hafi verið til að hafna byggingarleyfisumsókninni og ummæli um að nýtingarhlutfall samræmist ekki rammaákvæði aðalskipulags standist ekki skoðun.

Ekki lotið að nýtingarhlutfalli

Árið 2018 hafi kæranda verið veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem hefðu aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,43. Umsóknin sem hin kærða ákvörðun varði gangi skemur og hafi kærandi því haft réttmætar væntingar um að umsókn hans yrði samþykkt. Dregur kærandi í efa að nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi verið hin raunverulega ástæða fyrir afstöðu skipulagsráðs enda standist hún ekki skoðun.

Umsagnir nágranna hafi ekki lotið að nýtingarhlutfalli lóðarinnar heldur fyrst og fremst að því að til stæði að breyta húsinu í fjölbýlishús. Það að húsið sé skilgreint sem fjölbýli styrki umsóknina enda hafi skipulagsdeild bent á að fyrirhugað nýtingarhlutfall væri innan marka meðaltals á rað- og parhúsalóðum samkvæmt aðalskipulagi. Kópavogsbær benti á að byggingarleyfisumsóknin sem kæran varði hefði falið í sér töluverða aukningu á byggingarmagni. Lóðin sé staðsett á íbúðarsvæði.

Þétting byggðar meginmarkmið

Eitt af meginmarkmiðum gildandi aðalskipulags væri vissulega þétting byggðar en þrátt fyrir það væri ekki þar með sagt að möguleiki væri á að þétta byggð á öllum reitum eða lóðum sveitarfélagsins Þar sem umrædd lóð væri á ódeiliskipulögðu svæði eigi rammaákvæðin og markmið aðalskipulags við um þéttingu á lóðinni.

Tillagan er hin kærða ákvörðun tæki til samræmdist rammaákvæðum að undanskildu einu er varði nýtingarhlutfall. Bærinn hafnaði því að ekki hefði verið gætt að rannsóknarreglu eða öðrum meginreglum stjórnsýsluréttar. Í umsögn skipulagsdeildar væri að finna lista yfir nýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum. Væri nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða frá 0,18–0,31 að undanskilinni einni lóð sem hefði nýtingarhlutfall 0,43. Samkvæmt opinberum gögnum hefði síðasta breyting á því húsnæði verið samþykkt árið 1971 og gæti ekki verið fordæmisgefandi fyrir svæðið hvað nýtingarhlutfall varði.

Segir úrskurðarnefndin deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir 126,5 fermetra viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið hússins á umræddri lóð.

Segir svo í úrskurði:

„Lóðin Melgerði 11 er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir fram-kvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Ef greind skilyrði 1. mgr. 44. gr. eru ekki uppfyllt er ekki heimilt að beita ákvæðum um grenndarkynningu og ber þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. laganna.“

Byggingarmagn ekki hærra en meðalnýtingarhlutfall

Í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040 sé að finna almenn rammaákvæði sem gildi um þegar byggð hverfi. Rammaákvæðunum sé skipt upp í þrjá flokka, en byggingarleyfis-umsókn sú sem kæra þessi varðar falli undir flokka A og B. Í flokki A sé að finna eitt almennt rammaákvæði sem skipt sé upp í þrennt og eigi við öll hverfi Kópavogs, en í flokki B séu þrjú ákvæði sem eigi við um Digranes og Kársnes á ódeiliskipulögðum svæðum.

Samkvæmt rammaákvæði A1a skuli byggingarmagn nýbygginga að jafnaði ekki vera hærra en sem nemur meðalnýtingarhlutfalli nærliggjandi lóða. „Hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi var studd þeim rökum að umsóknin væri ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 hvað varðaði nýtingarhlutfall.

Rökstuðningur ófullnægjandi

Er sá rökstuðningur ófullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi umsagnar skipulags-deildar og þann fyrirvara sem þar er gerður við reiknað meðalnýtingarhlutfall nærliggjandi lóða. Er í þessu sambandi sérstaklega skírskotað til nýtingarhlutfalls par- og raðhúsalóða samkvæmt ákvæðum aðalskipulags og dæma um nýtingarhlutfall slíkra lóða á umræddu svæði,“ segir þá í úrskurðinum.

Með vísan til framangreinds sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum ágöllum að fallast verði á kröfu kæranda um ógildingu hennar. Felldi úrskurðarnefndin ákvörðun byggingarfulltúar þar með úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert