Faldi kókaín í fötum sínum og skóm

Keflavíkurflugvöllur Leifsstöð
Keflavíkurflugvöllur Leifsstöð Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt karlmann á fertugsaldri fyrir innflutning á 651,42 grömmum af kókaíni.

Maðurinn er dæmdur í ellefu mánaða fangelsi að frádregnum þeim tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi frá 13. mars.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lagði fram ákæru á hendur manninum í maí.

Ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi

Í mars stóð maðurinn að innflutningi á 651,42 grömmum af kókaíni ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hérlendis. Hann flutti fíkniefnin til Íslands sem farþegi með flugi til Keflavíkurflugvallar. Fíkniefnin faldi hann innanklæða og í skóm sem hann klæddist.

Maðurinn játaði skýlaust fyrir lögreglu og fyrir dómi. Hann hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi sem kunnugt er um. Í dómi héraðsdóms segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þessa atriða.

Í dóminum segir að af framburði mannsins fyrir dómi verður ekki ráðið að hann hafi verið eigandi fíkninefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum eða innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja þau til Íslands gegn greiðslu.

Gat ekki orðið að veruleika án aðkomu hans 

„Þótt ákærði hafi gegnt hlutverki burðardýrs er ljóst að innflutningur efnanna gat ekki orðið að veruleika án aðkomu hans að brotastarfseminni,“ segir í dómi héraðdóms.  

Auk fangelsisdómsins var kókaínið gert upptækt og honum gert að greiða allan sakarkostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert