Keflvíkingur: „Alltaf álitinn sem einhver trúður“

Blaðamaður ræddi við nokkra Suðurnesjamenn um komandi kosningar.
Blaðamaður ræddi við nokkra Suðurnesjamenn um komandi kosningar. Samsett mynd/mbl.is/Hermann

Morgunblaðið og mbl.is standa fyrir forsetafundi í kvöld klukkan 19.30 með Höllu Tómasdóttur á Park Inn by Radisson. Af því tilefni ræddi blaðamaður við nokkra Suðurnesjamenn um komandi forsetakosningar sem verða haldnar 1. júní.

Vilborg Einarsdóttir var í blómabúðinni sinni er blaðmaður mbl.is náði af henni tali. Hún er ekki alveg búin að ákveða sig en telur líklegt að Halla Tómasdóttir fái hennar atkvæði.

„Hún kemur rosalega vel fyrir, hún er með góða útgeislun og mér finnst margt spunnið í þessa konu,“ segir Vilborg um hana Höllu.

Vilborg Einarsdóttir.
Vilborg Einarsdóttir. mbl.is/Hermann

Mun kjósa Jón Gnarr

Keflvíkingurinn Guðni Ívar Guðmundsson er búinn að ákveða sig og mun hann kjósa Jón Gnarr. Hann segir að aðrir frambjóðendur hafi ekki náð að höfða til hans eins og Jón og er staðráðinn í að kjósa hann.

„Hann er lang einlægastur af frambjóðendunum og mér finnst geggjuð línan hjá honum þar sem hann talar um offramboð af leiðindum. Ég held að hann geti alveg verið sá sem getur snúið því við. Ég held að hann sé svolítið vanmetin, alltaf álitinn sem einhver trúður, en hann á miklu meira inni,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Guðní Ívar Guðmundsson.
Guðní Ívar Guðmundsson. mbl.is/Hermann

Voru að ræða málin yfir kaffilbolla

Kjartan Steinarsson og Jón Guðlaugsson voru að ræða málin yfir kaffibolla á bílasölunni K. Steinarsson er blaðamann bar að garði. Kjartan kveðst ætla að kjósa Höllu Hrund Logadóttur.

„Mér finnst þetta efnileg ung manneskja, vel menntuð og ég sé framtíð í henni,“ segir Kjartan.

Hann telur að menntun hennar sem og reynsla hennar erlendis séu góðir kostir fyrir forsetaembættið.

„Og ég tel það líka vera góðan kost að hún er ekki í pólitík,“ segir Kjartan.

Kjartan Steinarsson og Jón Guðlaugsson.
Kjartan Steinarsson og Jón Guðlaugsson. mbl.is/Hermann

Jón Guðlaugsson er ekki búinn að ákveða hvað hann ætlar að kjósa en hann segir valið þó standa á milli tveggja frambjóðenda.

„Það er Katrín [Jakobsdóttir] og Halla Tómasdóttir,“ segir Jón.

Honum finnst fyrst og fremst skpta máli að forseti sé heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér.

Hvenær heldurðu að þú munir ákveða þig?

„Það er ómögulegt að segja, ég er alveg beggja blands. Það getur hvor sem er orðið fyrir valinu. Mér líst vel á þær báðar, báðar mjög frambærilegar og frábærar manneskjur, ásamt fleirum sem eru í framboði. Það er ekki spurning um það, en ég kem til með að kjósa aðra hvora,“ segir Jón.

Ákveður sig í kosningavikunni

Dalrós Jóhannsdóttir segist vera óákveðin en valið stendur á milli tveggja frambjóðenda. Hún vill ekki greina frá því hverjir það eru en hún segist vilja forseta sem sé réttsýnn, forseti allra í landinu og sem geti verið góð fyrirmynd.

„Það er svona að myndast smám saman ákvörðun eftir þessar kappræður,“ segir hún aðspurð og bætir því við að hún muni ákveða sig í kosningavikunni.

Dalrós Jóhannsdóttir.
Dalrós Jóhannsdóttir. mbl.is/Hermann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert