Gallup: Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta í Reykjavík

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 49%, var 47% í síðustu könnun fyrir mánuði. Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 32%, var 36% síðast. Vinstri grænir standa í stað með 11%, Framsóknarflokkur sömuleiðis, er með rúm 3%. Frjálslyndi flokkurinn bætir við sig, var með rúm 3% en er nú með 5%. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Könnunin var gerð dagana 30. mars til 25. apríl.

Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkur meirihluta borgarfulltrúa eða 8, Samfylking 5 eða 6 og Vinstri grænir 1 eða 2, aðrir flokkar engan.

Greint eftir kyni kemur í ljós í könnun Gallups að 54% karla styðja Sjálfstæðisflokkinn, en 44% kvenna. Samfylkingin fær 29% fylgi hjá körlum en 35% hjá konum, Framsóknarflokkur fær mun meira hjá körlum en konum, svipað kynjahlutfall er á fylgi Frjálslyndra en Vinstri grænir fá 15% kvennafylgis og 8% karlafylgis. Þá kemur í ljós að því eldri sem reykvískir kjósendur eru þeim mun líklegra er að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn, en þeir yngri Samfylkingu eða Vinstri græna.

mbl.is