Rætt um gjaldtöku á bílastæðum við skóla í borgarstjórn

Samfylkingin boðar gjaldskyldu fyrir bílastæði við leik- og grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla í Reykjavík á næsta kjörtímabili, að því er segir í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Þar kemur fram, að sjálfstæðismenn lýstu sig algerlega andvíga slíkri gjaldtöku.

Við umræður á borgarstjórnarfundi um samgönguáætlun, sem nú stendur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur 16. maí 2006, kom fram, að Samfylkingin boðar gjaldskyldu fyrir bílastæði við leik- og grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla í Reykjavík á næsta kjörtímabili.

Hugmyndirnar um gjaldtökuna koma fram í framkvæmdaáætlun samgöngustefnunnar, þar sem segir meðal annars: „Reykjavíkurborg sýni fordæmi um gjaldskyld bílastæði við vinnustaði sína."

Samgöngustefnan var samþykkt af fulltrúum Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins í stýrihópi sem mótaði stefnuna, að því er segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is