Ólafur: Finnst okkur hafa verið gefið langt nef

Ólafur F. Magnússon ræðir við fréttamenn í dag.
Ólafur F. Magnússon ræðir við fréttamenn í dag. mbl.is/Eggert
Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslynda flokksins og óháðra í Reykjavík, segir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, hafi hringt í sig í dag, klukkustund eftir að boðaður fundur fulltrúa flokkanna átti að hefjast og sagt að ekki yrði af frekari viðræðum milli flokkanna um meirihlutamyndun í borgarstjórn.

„Hann sagðist ekki hafa meira við okkur að tala. Þetta voru mjög furðuleg skilaboð, finnst mér... Okkur finnst, að okkur hafi verið gefið langt nef með þessu," sagði Ólafur.

Viðræður milli Sjálfstæðisflokksins og Frjálslynda flokksins um meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur hófust eftir hádegi í gær og stóðu yfir með hléum fram eftir kvöldi.

Ekki hefur náðst tal af Vilhjálmi um málið í dag.

Ólafur sagði að efstu menn á F-listanum í Reykjavík hefðu fundað í morgun vegna viðræðnanna við sjálfstæðismenn. „Við hefðum getað sparað okkur mikinn undirbúning og vinnu síðan í gærkvöldi, ef við hefðum vitað að það væri engin alvara á bakvið þessar viðræður." Ólafur sagði jafnframt að honum hefði verið nokkuð brugðið eftir skilaboðin frá Vilhjálmi í dag. „Ekki vegna þess að mig langaði í stóla í borgarstjórn heldur vegna þess að verið var að halda okkur uppteknum við eitthvað sem engin alvara var á bakvið."
mbl.is