Útrásarvíkingar með Samfylkingunni

Davíð í pontu í dag.
Davíð í pontu í dag.

Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og stjórnar Seðlabanka Íslands, sagði „útrásarvíkingana hafa átt sameiginlega eina ósk“; að koma sér úr Seðlabanka Íslands. Þetta sagði hann í ræðu sem flutti á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Davíð fór vítt og breitt yfir hið pólitíska svið í ræðu sinni og marg endurtók að hin „verklausa vinstri stjórn“ Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefði valdið „stórkostlegu tjóni“ síðan hún tók við. Flokkarnir hefðu notfært sér upplausnarástand til þess að komast til valda og ráða „lausamann úr norska verkamannaflokknum“ til að stýra seðlabankanum, og átti þar við Svein Harald Oygaard Seðlabankastjóra. Davíð gagnrýndi hann harðlega og sagði vel mögulegt hann hefði, ásamt ríkisstjórninni og „höfuðlausum her í Fjármálaeftirlitinu“, valdið gríðarlegu tjóni fyrir íslenska ríkið þar sem ekki væri útséð með að ríkinu hefði verið heimilt að grípa inn í rekstur Straums, SPRON og Sparisjóðabankans, eins og gert var.

Vonandi Alzheimer

Sagði hann Svein hafa sagt á blaðamannafundi að hann myndi ekki hvenær hann hefði verið beðinn um að taka starfið að sér. „Annaðhvort er maðurinn með Alzheimer á alvarlegu stigi, eða hann sagði íslensku þjóðinni blygðunarlaust ósatt við fyrsta tækifæri [...] Við skulum vona að það sé Alzheimer-inn.“

Þá sagði hann komu norska ráðherrans Jens Stoltenberg inn í Seðlabankann þar sem hann hefði „spásserað um eins og hann ætti hann“ hefði verið einhver ömurlegasta framkoma að hálfu erlends erindreka hér á landi sem sést hefði lengi.

Auk þess hefðu fjölmiðlar, ekki aðeins „Baugsliðið“ heldur „allur söfnuðurinn“, ekki fjallað að neinu marki um hvort það væri eðlilegt að þverbrjóta gegn stjórnarskrá með því að ráða „þennan lausamann“.

Davíð þurfti reglulega að gera hlé á máli sínu, þar sem Landsfundarfulltrúar ýmist klöppuðu eða hlógu upphátt.

Litmyndir með „Milk-Sjeik“

Davíð gagnrýndi Samfylkinguna harðlega fyrir að hafa lagst á sveif með útrásarvíkingunum. Flokkurinn hefði einbeitt sér að því að halla sér upp að þeim, og barist síðan gegn Davíð með öllum ráðum.

Sérstaklega rifjaði Davíð upp umræðu á þingi um hvort rétt væri að hafa dreifða eignaraðild að bönkunum þegar þeir væru einkavæddir. Davíð sagðist hafa barist fyrir því að hafa hámarkseign 3 - 8 prósent en Samfylkingin hefði barist á móti því. Nefndi hann sérstaklega Sighvat Björgvinsson og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur í því samhengi, og vitnaði í þingræður þeirra.

Hann gagnrýndi einnig Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra fyrir að hafa helst viljað hafa „litmyndir af sér með Shjeiknum“, sem síðar var sagður hafa keypt fimm prósent hlut í Kaupþingi. Síðan hefði komið í ljós að þessi maður hefði verið lítið annað en „Milk-Shjeik“.

Björgvin G. og Össur láku öllu

Davíð sagði formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hafa óttast það að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, myndu leka þeim upplýsingum sem forsvarsmenn Seðlabanka Íslands kynntu fyrir forsvarsmönnum ríkisstjórnar Íslands fyrir bankahrun. Sagði hann Össur „hriplekan“ og aldrei hafa kunnað að fara með trúnaðarupplýsingar. Þess vegna hefði hann ekki verið með í ráðum á fundum þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við stöðu mála hjá bönkunum. Á meðan Össur hefði átti „Íslandsmetið í leka“ hefði Björgvin G. átt „drengjametið“. Þess vegna hefðu þeir ekki verið upplýstir um neina af þessum hlutum.

Af hverju ekki Túngötu?

Davíð varpaði enn fremur fram þeirri spurningu, af hverju „Raddir fólksins væru þagnaðar“, og talaði einnig um að ekki hefði enn komið fram hvernig þau samtök hefðu verið fjármögnuð. „Af hverju var mannfjöldanum ekki beint að Túngötu 6?“ sagði Davíð og vitnaði til höfuðstöðva Baugs, og mótmæla sem boðað var til fyrir framan Seðlabanka Íslands þegar mótmælt var sem mest. Sagði hann tilfinningahita þess fólks sem tók þátt í mótmælunum hafa verið eðlilegan og sjálfsagðan, en reiðinni hefði verið beitt í „kunnuglegar áttir“; að sér.

Davíð sagði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, hafa haft áhrif á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hefði leitt til þess að hann lagðist gegn því að Seðlabanki Íslands hæfi vaxtalækkunarferli í janúar.

Mesta „skemmdarverk seinni tíma“

Davíð gagnrýndi endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins harkalega og sagði það illa skrifað og þar væru margar rangfærslur. Sagði hann ekki trúverðugt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að láta þann mann, sem Hreiðar Már Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hefðu fengið til þess að stýra Samtökum atvinnulífsins, hlutast til um gerð siðareglna fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar átti hann við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, sem stýrði starfi endurreisnarnefndarinnar.

Nokkrir fundargestir gengu út þegar þessi orð féllu, og fór kliður um salinn.

Þá sagði hann synjun Ólafs Ragnars Grímssonar á því að staðfesta fjölmiðlalögin, hafa verið „mesta pólitíska skemmdarverk“ seinni tíma á Íslandi. Eftir það hefðu útrásarvíkingarnir eignast allra frjálsa fjölmiðla og nánast útilokað hefði verið að halda uppi nauðsynlegri gagnrýni á þá.

Í lok ræðu sinnar sagði hann alveg ljóst, að ef vinstristjórn væri við völd eftir kosningar myndi kreppan dýpka um „að minnsta kosti fjögur ár“. Í lok ræðunnar stóðu landsfundargestir upp og klöppuðu. Vel og lengi.

Ræða Davíðs Oddssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina