Fréttaskýring: Ráðherrakapall lagður á morgun

Nú sér fyrir endann á stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna …
Nú sér fyrir endann á stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingar og Vinstri grænna sem staðið hafa í tæpar tvær vikur. Stjórnarsáttmáli verður að líkindum kynntur á sunnudag. mbl.is/Ómar

Formenn Samfylkingar og Vinstri grænna, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hófu í dag að ræða við þingmenn sinna flokka um ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn. Þeim viðræðum verður fram haldið á morgun. Formennirnir halda spilunum þétt að sér, eru fyrst og fremst að hlusta á þingmenn og þeirra kröfur eða óskir, bæði hvað varðar ráðherraskipan og nefndasetur.

Æðstu stjórnir þinga á sunnudag

Þingflokkar stjórnarflokkanna koma saman til fundar á sunnudag. Þingflokkur Samfylkingar þingar trúlega í hádeginu, þar sem ráðherraskipan ræðst endanlega. Í kjölfarið kemur flokksstjórn Samfylkingarinnar saman til fundar á Hótel Sögu þar sem stjórnarsáttmáli og ráðherraskipan verða til umræðu.

Þessu er öfugt farið hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Flokksráð VG er boðað til fundar á Grand hóteli klukkan 9 á sunnudagsmorgun en í kjölfarið þingar þingflokkur VG og blessar endanlega eða fellir sáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Litlar breytingar í upphafi

Þó ætlunin sé að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnskipan Íslands á kjörtímabilinu er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum strax. Þar ræður bæði að umfangsmeiri breytingar kalla á aðkomu Alþingis og þá þykir ekki rétt að róta upp í embættismannakerfinu meðan greitt er úr þeim risavöxnu vandamálum sem við er að eiga.

Starfshópur um breytingar á stjórnskipan, sem skipaður var í upphafi stjórnarmyndunarviðræðnanna, hefur nú skilað tillögum til formanna Samfylkingar og VG. Lykilorðið í endurskipulagningu ráðuneyta er skilvirkni. Ráðuneytin eru nú 12 og ráðherrarnir 10.

Líklegt er að ráðuneytum verði fækkað um eitt í upphafi, verkefni verði færð milli ráðuneyta og tveir eða þrír nýir ráðherrar taki sæti í þeirri ríkisstjórn sem væntanlega tekur við völdum á sunnudag.

Skilvirkari verkaskipting ráðuneyta

Hugmyndin er að nýtt atvinnumálaráðuneyti, sem færi með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og verkefni sem nú heyra undir iðnaðarráðuneyti taki strax til starfa. Þar með fækkar ráðuneytum úr 12 í 11.

Þá er ætlunin að skerpa á utanumhaldi efnahagsmála með því að færa þau verkefni sem lúta að málaflokkunum, frá forsætis- og fjármálaráðuneytum til viðskiptaráðuneytis sem yrði þá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þar yrði eingöngu um tilflutning verkefna að ræða.

Loks er ætlunin að efla umhverfisráðuneytið og færa undir þess hatt auðlindamál, hverju nafni sem þau nefnast. Þar með færðust verkefni frá sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytum til hins nýja auðlinda- og umhverfisráðuneytis.

Umfangsmeiri breytingar bíða að líkindum til loka árs, verða gerðar í tengslum við fjárlagagerð næsta árs og tækju gildi í byrjun árs 2010.

Þá gæti orðið frekari uppstokkun í ráðherraliðinu og jafnvel frekari samþætting ráðuneyta. Þar horfa menn helst til heilbrigðis-, félags- og tryggingamála.

Svandís og Árni Páll inn

Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á ráðherraskipan til að byrja með. Jóhanna Sigurðardóttir mun áfram fara með verkstjórn og sitja í forsætisráðuneytinu. Össur Skarphéðinsson heldur trúlega utanríkisráðuneytinu og Kristján L. Möller samgönguráðuneytinu. Þá er ekki talið líklegt að hróflað verði við Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að sinni.

Hjá VG er næsta víst að Steingrímur J. Sigfússon heldur fjármálaráðuneytinu og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðuneytinu. Ögmundur Jónasson þykir líklegur til að halda áfram setu í heilbrigðisráðuneytinu en Kolbrún Halldórsdóttir er hins vegar á leið úr umhverfisráðuneytinu og er nafn Svandísar Svavarsdóttur helst nefnt í hennar stað.

Þá er mikill vilji fyrir því hjá Samfylkingunni að Gylfi Magnússon, sitji áfram í viðskiptaráðuneytinu og takist áfram á við þau risavöxnu verkefni sem við blasa. Þá þykir ekki heldur verra að hafa utanflokkamann í ráðuneyti efnahags- og viðskiptamála meðan rannsókn sérstaks saksóknara á efnahagshruninu stendur yfir.

Ragna Árnadóttir er að líkindum á leið úr ríkisstjórn og er nafn Árna Páls Árnasonar títt nefnt sem næsta dóms- og kirkjumálaráðherra.

Meiri óvissa ríkir með hverjir setjast í iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Nafn Atla Gíslasonar, oddvita VG í Suðurkjördæmi er gjarnan nefnt, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, oddvita VG í Suðvesturkjördæmi og Jóns Bjarnasonar oddvita VG úr Norðvesturkjördæmi.

Kynjakvótar eða hæfni?

Fjölmargt ræður vali flokksformanna við skipan ráðherra. Kynjakvótar hafa verið áberandi í báðum flokkum en mál manna er að við þær aðstæður sem uppi eru núna þurfi fyrst og fremst að finna hæfasta einstaklinginn í hvert ráðuneyti, innan þings eða utan. Formenn Samfylkingar og VG ljúka viðræðum við þingmenn sína á morgun. Í kjölfar þess leggja þeir ráðherrakapalinn á borðið, hvor í sínu lagi, fyrir æðstu stofnanir flokka sinna.

Ríkisstjórn Íslands
Ríkisstjórn Íslands mbl.is/Ómar
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Frikki
mbl.is