Persónukjör við næstu sveitarstjórnakosningar

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar var haldinn á Akureyri í dag.
Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar var haldinn á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti

Ríkisstjórnin stefnir að því að hægt verði að taka upp persónukjör við næstu sveitarstjórnakosningar, sem fram fara á næsta ári. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði málið fram á fyrsta fundi nýrrar ríkisstjórnar sem fram fór á Akureyri í dag og sagði mjög æskilegt að það yrði að lögum fyrir kosningarnar að ári.

Forsætisráðherra segist leggja áherslu á að málið verði unnið í samvinnu við alla þingflokka á Alþingi og Samband sveitarfélaga, og sagði að fljótlega yrðu kallaðir saman tengiliðir allra flokka og sambandsins.

Jóhanna lagði einnig fram á ríkisstjórnarfundinum í dag mál vegna þjóðaratkvæðagreiðslu og ráðgefandi stjórnlagaþings, mál sem lögð voru fram á 90 daga þinginu, þegar þessir flokkar voru í minnihluta, en náðu þá ekki fram að ganga. Hún tók einnig fram að þau mál yrðu unnin í samvinnu við alla þingflokkana.

Jóhanna lagði áherslu á að um væri að ræða ráðgefandi stjórnlagaþing. „Þetta er ekki breyting á stjórnarskránni eins og við lögðum til síðast heldur er þetta spurning um að leggja fram þingmál sem felur í sér að komið verði á stjórnlagaþingi sem verði ráðgefandi, og það verði kosið til þessa stjórnlagaþings samhliða næstu sveitarstjórakosningum.“

mbl.is