Kærir Stöð 2 til útvarpsréttarnefndar

Reykjavíkurframboðið X-E hefur lagt fram kæru á Stöð 2 til útvarpsréttarnefndar og telur fjölmiðilinn hafa brotið 9. gr. útvarpslaga. Krafist er tafarlausrar úrlausnar útvarpsréttarnefndar með tilliti til sveitarstjórnarkosninganna á morgun.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurframboðinu segir, að Stöð 2 bjóði 5 framboðum til kosningaumræðu á viðkvæmum tíma en útiloki þrjú framboð frá umræðunni. Þetta telji framboðið skýlaust brot þar sem sé tiltekið að öll sjónarmið í umdeildum málum eigi að fá umfjöllun. 

„Reykjavíkurframboðinu þykir lýðræðishallinn alveg yfirdrifinn nú þegar. Ný framboð eru að keppa við flokka um athygli sem að fá 300 milljónir á hverju ári til að viðhalda völdum sínum," segir í tilkynningunni.

Oddvitar fimm stærstu stjórnmálaflokkanna í Reykjavík munu koma fram í umræðuþætti á Stöð 2 í kvöld. Freyr Einarsson, fréttastjóri Stöðvar 2, sagði við mbl.is í vikunni að fulltrúar minni flokkanna muni fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í innslögum í þættinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina