Ari Trausti ætlar í framboð

Ari Trausti Guðmundsson og eiginkona hans María G. Baldvinsdóttir.
Ari Trausti Guðmundsson og eiginkona hans María G. Baldvinsdóttir. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann ásamt eiginkonu sinni, Maríu G. Baldvinsdóttur, á blaðamannafundi að heimili þeirra í Grafarvogi nú fyrir stundu. 

Vinir og vandamenn Ara Trausta fjölmenntu á blaðamannafundinn og var fullt út úr dyrum á heimili hans. Ari Trausti talaði fyrir hönd þeirra hjóna þegar hann sagði: „Hvað viljum við? Við viljum aukna bjartsýni og jafnrétti, við viljum að mannúð og heiðarleiki séu í fyrrirúmi og við viljum sjá sanngirni og ábyrgð í verki.“ Kosningastjóri Ara Trausta er Lára Janusdóttir.

Þriggja barna faðir sem fæst við ýmis störf

Ari Trausti er fæddur í Reykjavík 3. desember árið 1948. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968, prófi í forspjallsvísindum frá Háskóla Íslands árið 1972 og varð Cand.mag í jarðeðlisfræði við Óslóarháskóla árið 1973. 

Hann hefur unnið ýmis störf, m.a. sem grunnskólakennari, leiðsögumaður og dagskrárgerðarmaður fyrir bæði Ríkisútvarpið- og sjónvarpið auk þess að vera veðurfréttamaður í sjónvarpi hjá Stöð 2. Hann var einnig viðriðin stjórnmál á sínum yngri árum, en hann var formaður miðstjórnar Einingarsamtaka kommúnista á árunum frá 1973 til 1980.

Ari Trausti hefur einnig fengist við ritstörf og skrifað fjölda bóka um náttúru og jarðfræði Íslands og hafa bækur hans um þau efni komið út á íslensku, ensku, ítölsku og frönsku. Hann var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 fyrir bók sína Íslenskar eldstöðvar og hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2002 fyrir smásagnasafnið Vegalínur. 

Ari Trausti og María Baldvinsdóttur eiga saman þrjú uppkomin börn. 

Sjö frambjóðendur eru nú komnir fram til forsetakjörs, en það eru þau Ólafur Ragnar Grímsson sitjandi forseti, Jón Lárusson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ástþór Magnússon og Þóra Arnórsdóttir, auk Ara Trausta Guðmundssonar. Kosið verður 30. júní næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina