Þau ummæli Ragnars Arnalds, fv. ráðherra og félaga í VG, að landsbyggðarfólk hafi verið farið af landsfundi Vinstri grænna þegar kosið var um ályktun vegna Evrópumála á sunnudaginn var eiga ekki við rök að styðjast, að sögn Katrínar Bessadóttur, upplýsingafulltrúa VG.
Taldi Ragnar að sú niðurstaða að styðja ályktun um að setja aðildarviðræðunum tímaramma endurspegli því ekki afstöðu meirihluta flokksmanna til málsins, enda hafi margir landsbyggðarmenn sem leggjast gegn inngöngu í ESB verið farnir af fundinum.
Katrín segir þessa túlkun Ragnars ekki reista á staðreyndum.
„Vegna fréttar á mbl.is þess efnis að landsbyggðarfólk hafi verið farið af Landsfundi VG áður en atkvæðagreiðsla fór fram um ESB ályktun langar mig að koma þeirri ábendingu á framfæri að það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé réttur málflutningur.
Fundur var auglýstur til 17:00, og hafði sá tími verið fundargestum ljós í alllangan tíma. Úrslit úr tveimur atkvæðagreiðslum varðandi ESB voru ljós fyrir klukkan 16:00.
Svipað margir skiluðu atkvæði í kjöri til flokksráðs sem fór fram fyrir hádegi og í atkvæðagreiðslunni um ESB.“
Sjá nánar hér.