Framsókn með 28,5%

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framsóknarflokkurinn er með mest fylgi í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, vegna komandi þingkosninga. Flokkurinn fengi 28,5% atkvæða, yrði gengið til kosninga nú, sem er aukning um sex prósentustig frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar í byrjun mars. Fengi Framsókn 21 þingmann kjörinn, borið saman við níu árið 2009.

Næstur á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 26,1% fylgi, 3,3 prósentustigum minna en í síðustu könnun og 19 þingmenn, er með 16 núna. Samfylkingin fengi 12,8%, var með 16,1% í síðustu könnun og tæp 30% í síðustu kosningum. Samfylkingin fékk 20 þingmenn 2009 en fengi níu nú. Vinstri grænir fengju 8% fylgi samkvæmt könnuninni nú, voru með 9,9% í síðustu könnun en fengu 21,7% í kosningunum 2009. VG fengi sex þingmenn í stað 14 árið 2009. Björt framtíð fengi 11,4% fylgi nú, var með 12% í síðustu könnun og fengi átta þingmenn kjörna. Aðrir flokkar kæmu ekki manni inn á þing.

Félagsvísindastofnun framkvæmdi könnunina dagana 18. til 26. mars sl. Alls voru 3.400 manns í úrtakinu, þar af 1.800 í netkönnun og 1.600 í símakönnun. Alls fengust 2.014 svör frá fólki á aldrinum 18-83 ára og svarhlutfallið var tæp 60%.

Svarendur voru einnig spurðir hvaða flokka þeir kusu í kosningunum 2009. Í ljós kemur að mikil hreyfing er á fylginu á milli flokka. Flestir ætla að kjósa Framsóknarflokkinn aftur, eða 82% framsóknarmanna, á meðan 65% sjálfstæðismanna halda tryggð við flokkinn, 40% hjá Samfylkingunni og 34% hjá VG. Þá ætla 25% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, 19,5% þeirra sem kusu VG og 17,8% sem kusu Samfylkingu að kjósa Framsókn. Björt framtíð tekur mest fylgi frá stjórnarflokkunum.

„Mjög ánægjulegt“

„Við sjálfstæðismenn eigum ekki nema eitt svar við þessu; það er að spýta í lófana og reyna að gera betur,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, segir mjög ánægjulegt að sjá flokkinn halda fylgi síðustu kannana.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, eru sammála um að margt geti breyst í aðdraganda kosninganna en Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, segir flokkinn þurfa að herða róðurinn.

Fylgi flokkanna samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar
Fylgi flokkanna samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar mbl.is/Elín Esther
Forysta Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi …
Forysta Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka