Sigrún og Guðni enn að meta stöðuna

Sigrún Stefánsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson.
Sigrún Stefánsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is

„Ég er ekki búin að gera þetta upp við mig. Ég er svona pínulítið að sjá hvernig hlutirnir þróast hjá öðrum. En það náttúrulega breytti miklu þegar forsetinn skipti um skoðun,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, um mögulegt framboð til embættis forseta Íslands.

Sigrún hyggst gefa sér þessa viku til að ákveða hvort hún fer fram.

Forsetakosningar fara fram 25. júní næstkomandi en frestur til að tilkynna um framboð rennur út fimm vikum áður, eða 21. maí.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur er meðal þeirra sem hafa fengið áskoranir um framboð.

„Ég er eins bjartsýnn og kappsamur og fyrri daginn, en sit hér í Reykholti í Borgarfirði og lýk við bók mína um embætti forseta Íslands og þá sem því hafa gengt, og ýti um leið til  hliðar öllum áformum um framtíðina,“ sagði hann þegar mbl.is ræddi við hann fyrir stundu.

„Í dag lít ég um öxl, ekki fram á við, og bið fólk að virða það.“

Guðni segist ekki hafa sett sér ákvörðunarfrest, enda viti enginn hvað gerist næst.

„Allt er háð stöðunni hverju sinni og þannig lagað engin þörf á því að setja sér einhverja eindaga að óþörfu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina