Sjálfstæðisflokkur og Píratar stærstir

mbl.is/Hjörtur

Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar mælast stærstu flokkar landsins samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup sem var framkvæmdur dagana 26. júlí til 31. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 26,3% fylgi og Píratar með 25,8% og er munurinn ekki marktækur. Eru þeir einu flokkar landsins sem gætu myndað tveggja flokka ríkisstjórn miðað við þessar tölur.

Fylgi Vinstri grænna mælist nú svipað og síðast, eða 16,2%, og Viðreisn bætir við sig 1,5% og mælist með 10,6%. Framsóknarflokkurinn missir 0,9% milli kannana og fær 9% fylgi, Samfylkingin stendur í stað með 8,3% og Björt framtíð missir prósentustig og mælist með 2,9%.

Um 1% segist ætla að kjósa aðra flokka, en þar af fær Íslenska þjóðfylkingin 0,6%.

Um er að ræða netkönnun á vegum Gallup þar sem heildarúrtaksstærðin er 5.764 og svarhlutfallið 54,9%. Vikmörk flokka eru á bilinu 0,6%-1,7% og voru einstaklingar valdir af handahófi úr viðhorfshópi Gallup.

mbl.is

Bloggað um fréttina