Áróðurssíður neita tengslum við flokka

Áróðursmynd á Kosningum 2016 þar sem ný stjórnarskrá er sett …
Áróðursmynd á Kosningum 2016 þar sem ný stjórnarskrá er sett í samhengi við upplausnarástandið í Venesúela. ljósmynd/Kosningar 2016

Neikvæður og nafnlaus áróður hefur verið áberandi á Facebook í aðdraganda þingkosninganna. Aðstandendur tveggja nafnlausra áróðurssíðna neita því að þeir tengist  stjórnmálaflokkum og telja þeir sem standa að annarri síðunni sér ekki óhætt að koma fram undir nafni. Stjórnmálafræðingur vill skoða hömlur á nafnlausan áróður.

Lítil hefð hefur verið fyrir neikvæðri kosningabaráttu á Íslandi en slíkur áróður hefur yfirleitt aðeins komið frá nafngreindum aðilum, að sögn Huldu Þórisdóttur, lektors í stjórnmálafræði. Fyrir þessar kosningar ber hins vegar svo við að áróður gegn tilteknum flokkum og stjórnmálamönnum frá nafnlausum Facebook-síðum fer víða.

Hulda segir að slíkur áróður hafi ekki sést fyrr í slíkum mæli þó að einhver vísir að honum hafi birst fyrir síðustu kosningar. Áróðurinn virðist skipulegur og oft fagmannlega unninn.

„Það er ekki nýtt að menn reyni að koma á flot neikvæðum fréttum um andstæðinga sína en að það sé svona markvisst gert, jafnt og þétt og skipulagt greinilega hjá sumum, beinlínis úthugsað í þessum tilgangi og ekki sjálfsprottið er nýtt,“ segir Andrés Jónsson, almannatengill hjá Góðum samskiptum, sem telur þetta einnig kalla á spurningar um hvort hægt sé að takmarka áhrif nafnlausra á lýðræðislegt ferli eins og kosningar eða að minnsta kosti láta fólk taka ábyrgð á því sem það setur fram.

Ásakanir um spillingu og samanburður við Venesúela

Tvær þessara nafnlausu Facebook-síða eru Kosningar 2016 og Betra skilið. Sú fyrrnefnda gefur sig út fyrir að gaumgæfa kosningaloforð stjórnmálamanna og hefur að minnsta kosti einn forystumanna Sjálfstæðisflokksins mælt opinberlega með síðunni sem staðreyndavakt í aðdraganda kosninganna.

Kosningar 2016 beina sjónum sínum hins vegar eingöngu að stjórnarandstöðuflokkunum, sérstaklega þó Pírötum og Vinstri grænum. Á síðunni eru meðal annars myndbönd og myndir sem virðast hafa verið unnar sérstaklega fyrir síðuna. Á einni þeirra eru hugmyndir um nýja stjórnarskrá sem Píratar hafa sérstaklega talað fyrir settar í samhengi við Venesúela og ófremdarástandið þar.

Betra skilið virðist aftur á móti koma af vinstri væng stjórnmálanna. Þar eru færslurnar yfirleitt í formi texta, stundum í samhengi við fréttir, og er farið hörðum orðum um núverandi stjórnarflokka, sem eru sagðir spilltir.

Dæmi um færslu af nafnlausu síðunni Kosningum 2016 þar sem …
Dæmi um færslu af nafnlausu síðunni Kosningum 2016 þar sem stærðfræðimenntun Smára McCarthy er gerð að skotspóni. Skjáskot/Kosningar 2016

Afhjúpa lýðskrum í stjórnmálum

Mbl.is sendi aðstandendum beggja síðna skilaboð og spurði hver stæði að baki þeim.

„Eiginlega aðeins of margar andlátsóskir og formælingar til þess að við nennum að upplýsa um það,“ var svar huldufólksins sem stendur að baki Kosningum 2016 en mikinn fjöldi neikvæðra ummæla er að finna við flestar færslur á síðunni.

„Þetta er bara afskaplega smár hópur áhugamanna um að afhjúpa lýðskrum í stjórnmálum en alls ekki á vegum neins stjórnmálaflokks. Af viðbrögðum vinstrisinnaðra lesenda að dæma virðist alls ekki óhætt að koma fram undir nafni,“ sagði hópurinn enn fremur í svari við fyrirspurn Mbl.is á Facebook.

Hópurinn svaraði því ekki hvers vegna hann beindi gagnrýni sinni aðeins að stjórnarandstöðuflokkunum í ljósi þess að hann segðist alls ekki á vegum neins stjórnmálaflokks.

Viðbragð við Kosningum 2016

Aðstandandi Betra skilið segist vera einstaklingar sem kýs að vera nafnlaus. Síðan sé ekki á vegum neins stjórnmálaflokks.

„Ég ákvað að stofna þessa síðu út af Kosningar 2016 síðunni til að reyna að jafna leikinn aðeins,“ segir einstaklingurinn í svari til Mbl.is á Facebook.

Dæmi um færslu af nafnlausu Facebook-síðunni Betra skilið sem deilir …
Dæmi um færslu af nafnlausu Facebook-síðunni Betra skilið sem deilir á stjórnarflokkana. Skjáskot/Betra skilið

Spurður að því hvort hann telji það hjálpa stjórnmálaumræðunni að síður eins og Betra skilið og Kosningar 2016 framleiði og dreifi nafnlausum áróðri segir hann svo ekki vera.

„Nei því miður er þetta ekki að hjálpa stjórnmálaumræðunni mikið. Það er sorglegt á hvaða plan hún er komin,“ segir aðstandandi Betra skilið, sem telur sig engu að síður yfir Kosningar 2016 hafinn.

„Annars tel ég að það sem ég er að segja sé byggt á rökum og staðreyndum, á meðan að það sem Kosningar 2016 síðan segir er aðallega hræðsluáróður sem er klipptur úr samhengi. Því miður trúir fólk vitleysunni frá þeim.“

Samband milli heimildar og upplýsinga getur rofnað

Betra skilið og Kosningar 2016 eru þó fjarri því einu áróðurssíðurnar sem hafa skotið upp kollinum fyrir þessar kosningar. Síðan Jæja heldur uppi hörðum málflutningi gegn ríkisstjórninni og Sjálfstæðisflokknum sérstaklega og nú í vikunni spratt upp Facebook-síðan Forsætisráðherrann þar sem aðeins eru myndir af Smára McCarthy, frambjóðanda Pírata, með skotvopn í Afganistan og áróðursmyndband gegn honum.

Hulda hefur áhyggjur af þessari þróun og segir stjórnmálaumræður á Facebook hafa harðnað undanfarin. Áróðurssíður sem þessar kyndi undir það.

„Mér finnst þetta persónulega mjög miður og held að við ættum að taka samtal um það eftir þessar kosningar hvort við viljum bregðast við þessu með einhverjum hætti. Hvort okkur þyki í lagi að það sé ekki ljóst hverjir standi að baki áróðri. Auðvitað er aldrei hægt að stoppa það fullkomlega en mér þætti sjálfri í lagi að við veltum fyrir okkur einhverjum hömlum á svona áróður,“ segir Hulda, sem vísar til þess að slíkar takmarkanir séu við lýði í Bandaríkjunum.

Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði.
Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði. mbl.is/Eggert

Almennt séð hafi rannsóknir sýnt að neikvæður áróður hafi ekki mikil áhrif eða dragi úr líkum á að fólk fari á kjörstað eins og kenningar hafa verið um. Erfitt sé þó að heimfæra rannsóknir frá Bandaríkjunum um neikvæðar kosningabaráttur upp á Ísland þar sem fyrirbærið sé nýtt hér.

„Það er þá mögulega að koma eins og eitur inn í umhverfið en í Bandaríkjunum er það kannski búið að vera eitrað miklu lengur,“ segir Hulda.

Neikvæður áróður gæti haft sálfræðileg áhrif á kjósendur að sögn Huldu og nefnir hún svonefnd svefnáhrif. Þegar fólk sér áróður fyrst hafnar því honum sem vitleysu sem kemur frá tilteknum hópi.

„Það sem getur gerst yfir tíma ef áróðurinn er ekki þeim mun fáránlegri er að það rofni tengsl í huga fólks á milli hinnar ótrúverðugu uppsprettu og upplýsinganna. Það sem lifir einhverjum mánuðum seinna er upplýsingarnar. Það eru til rannsóknir í sálfræði sem styðja við að þetta geti gerst,“ segir Hulda.

Líklega fjármagnað af stuðningsmönnum eða andstæðingum

Ástæðan fyrir því að aðstandendur síðna af þessu tagi velja að vera nafnlausir er meðal annars sú að þessi starfsemi þykir svolítið skítug, að sögn Andrésar. Svo virðist vera að einhverjir af þeim sem halda úti þessum síðum séu fjármagnaðir af stuðningsöflum eða andstæðingum stjórnmálaflokka.

„Starfsemin þykir ekki falleg og þú vilt í raun ekki kenna þig við hana. Ef peningaöfl eru þarna að baki er þetta kallað gervigrasrótarherferð þar sem menn láta líta út fyrir að það séu einhver öfl sem eru sjálfsprottin en það eru raunverulega einhverjir hagsmunir að baki sem vilja ekki láta sjást,“ segir Andrés.

Hann telur sig sjá merki um að aðilar sem hafi verið virkir í starfi stjórnmálaflokka komi að einhverjum þessum síðum. Jafnframt telur hann þó að flokkarnir hafi að líkindum vit á að vera ekki formlega bakhjarlar starfsemi af þessu tagi jafnvel þó að óformleg tengsl geti verið til staðar eða að flokkarnir viti hverjir standi að síðunum.

„Í þeim tilfellum þar sem augljóslega er fjármagn að baki er ólíklegt að það fé hafi komið beint úr hirslum stjórnmálaflokka. Það er frekar að einhverjir sem telji sig hafa hag af einhverri niðurstöðu kosninganna eða af einhverri hugsjón, að þeir geti ekki hugsað sér að einhver ákveðin öfl verði við völd, styrki beint svona starf,“ segir Andrés.

Andrés Jónsson, almannatengill.
Andrés Jónsson, almannatengill.

Gæti haft áhrif á fylgi Pírata

Á árum áður hafi verið þekkt að stjórnmálaflokkar af báðum vængjum hafi látið ungliðahreyfingar sínar sjá um að segja hluti sem þeir treystu sér ekki til að segja sjálfir, þar á meðal hræðsluáróður eða róttækar skoðanir.

„Núna eru menn búnir að finna þessar leiðir að fara í gegnum samfélagsmiðlana þar sem er hægt að stofna nafnlausar síður. Svo er þessu dreift áfram af fólki. Maður sér að vandað fólk sem er vant að virðingu sinni gerist sekt um að dreifa hlutum sem eru kannski ekki mjög málefnalegir í hita kosninganna, til dæmis frá þessum aðilum,“ segir Andrés.

Andrés segir að rannsóknir vestanhafs hafi sýnt að neikvæður áróður geti stöðvað fylgisaukningu flokka sem eru á uppleið. Því sé hugsanlegt að þessar aðferðir geti haft áhrif á gengi Pírata, sem hafi fengið á sig mikið af neikvæðum fréttum undanfarnar vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina