Skapa svigrúm og nýtt þing tekur afstöðu

Með frumvarpinu eru gerðar tvenns konar breytingar til bráðabirgða.
Með frumvarpinu eru gerðar tvenns konar breytingar til bráðabirgða. mbl.is/Golli

Frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga er annað þeirra frumvarpa sem stendur til að afgreiða á Alþingi í dag áður en þingstörfum lýkur. Frumvarpið þarf að fara í gegnum þrjár umræður og hljóta afgreiðslu í nefnd áður en það verður að lögum. Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er flutningsmaður frumvarpsins. Meðflutningsmenn koma úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar til bráðabirgða á lögum um útlendinga, sem taka til barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir gildistöku laganna og hafa ekki þegar yfirgefið landið.

Frestir styttir í 9 og 15 mánuði

Annars vegar er lagt til að frestur verði styttur úr tólf mánuðum í níu þegar kemur að því að taka umsókn um vernd til efnislegrar meðferðar. Í því felst að hafi meira en níu mánuðir liðið frá því að umsókn barns um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum skuli almennt taka hana til efnislegrar meðferðar. 

Hins vegar er lagt til að frestur verði styttur úr átján mánuðum í fimmtán þegar kemur að því að veita barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í því felst að heimilt verður að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan fimmtán mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. 

Í báðum tilfellum væri þá talið eðlilegt að foreldrar, sem fara með forsjá barna, og systkini eftir atvikum, fái sömu meðferð, að uppfylltum skilyrðum. 

Skapa svigrúm fyrir nýtt þing til að taka afstöðu

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ætla megi að kærunefnd útlendingamála hafi við gildistöku laganna þegar fellt úrskurði úr gildi um að synja um efnismeðferð eða dvalarleyfi í tilvikum einhverra barna. Með frumvarpinu verður þessum börnum tryggður réttur til endurupptöku á sínum málum, en veittur er tveggja vikna frestur frá gildistöku laganna til að fara fram á endurupptöku. Nýti barnið ekki heimildina innan frestsins stendur úrskurður kærunefndar og fæli það í sér að barninu yrði gert að yfirgefa landið.

Þá er í greinargerðinni áréttaður vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Lagt er til að breytingarnar sem í frumvarpinu felast taki aðeins til umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Með breytingunum skapast hins vegar níu mánaða svigrúm frá gildistöku til að ákveða æskilegt framhald. Að mati flutningsmanna frumvarpsins er eðlilegt að veita slíkt svigrúm svo unnt verði að meta áhrif breytinganna og að nýtt þing geti tekið afstöðu til þess hvernig málinu verði fram haldið.

mbl.is