Börn fái nauðsynlega vernd

Logi Einarsson í Alþingishúsinu í dag.
Logi Einarsson í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Eggert

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að loknum fundi formanna flokkanna með forseta Alþingis að umræður um breytt útlendingalög hefðu ekki verið á þann veg sem hann hefði viljað sjá, þannig að breytingarnar tryggðu börnum fullnægjandi réttindi.

„En við náum hugsanlega lendingu um afgreiðslu sem tryggir börnum sem eru hér á landi, þessum tveimur sem mikið hefur verið rætt um og öðrum sem eru í svipaðri stöðu nauðsynlega vernd,“ sagði Logi og vonaðist til að þeim yrði ekki vísað úr landi.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Engum dyrum verið lokað“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði flokkinn sömuleiðis leggja mikla áherslu á breytingu á útlendingalögunum.

Hún sagði að fundinum loknum að sameiginleg niðurstaða væri ekki komin um hvort og þá hvernig þinghaldið ætti að vera.

„Það hefur engum dyrum verið lokað og ég vænti þess að við fundum aftur eftir helgi,“ sagði hún.  „Ef það á að nást samkomulag þá hanga öll þessi mál saman.“

Spurð út í frumvarp dómsmálaráðherra um uppreist æru sagði hún að það virtist við fyrstu sýn í takt við það sem allir flokkar hafa verið að ræða. „Það liggur fyrir að það tekur á hluta málsins en það er heilmikið verk óunnið til að ljúka þeirri vinnu.“

Enn að tala saman

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sagði að fundinum  loknum: „Menn eru ennþá að tala saman og eðlilegt að menn vilji tala við sína þingflokka og við erum stödd þar,“ sagði hún.

„Mér heyrist flestir vera á því að reyna að klára til þrautar að tala saman,“ bætti hún við og vildi ekkert segja til um hvort þingi mundi ljúka í næstu viku.

mbl.is