„Fátæktin er þjóðarskömm“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að kosningarnar í haust muni snúast um vilja þjóðarinnar til breytinga. Hún segir að fátækt á Íslandi sé þjóðarskömm, og að það verði forgangsatriði fyrir flokk sinn að útrýma henni með öllu. 

Í viðtali við Morgunblaðið í dag ræðir Inga um ástæðuna fyrir því að hún ákvað að stofna Flokk fólksins, en hún telur brýnt að stjórnvöld fari að vinna fyrir fólkið í landinu. Inga ræðir þar einnig málefni aldraðra og öryrkja og gagnrýnir harðlega frítekjumarkið sem haldi fólki í fátæktargildru. Hún segir að hæglega væri hægt að afnema það án þess að það kostaði ríkissjóð krónu.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Golli

Ekki komi til greina að starfa í ríkisstjórn sem ekki sé tilbúin til þess að takast á við þau mál sem Flokkur fólksins setji á oddinn. „En þó við værum í minnihluta á þinginu gætum við tekið öflugan þátt í umræðunni. Við gætum spurt hvað með frítekjumarkið, hvað með heilbrigðismálin, hvað með samgöngur, hvað er málið með alla þessa skatta? Við myndum láta þessa aðila svara í pontu Alþingis hvað í rauninni fer fram.“

Aðspurð segir Inga framtíðarsýn sína einfalda. „Mig langar að við séum ein þjóð í þessu landi, og að okkur þyki vænt hvert um annað. Að við berum virðingu fyrir hvert öðru og séum bjartsýn og brosandi frekar en að agnúast út í hvert annað. Ég vil trúa því að með því að taka saman höndum getum við útrýmt fátækt og lifað í sátt og samlyndi og meiri gleði. Aðalmálið er ekki við hvað þú krossar í kjörklefanum, heldur að við séum öll í sama liði.“

Bloggað um fréttina