38% kjósa Miðflokkinn í stað Framsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls ætla 38% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í alþingiskosningunum í fyrra að kjósa Miðflokkinn um næstu helgi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.

Miðflokkurinn tekur einnig nokkuð fylgi frá Sjálfstæðisflokknum, miðað við könnunina, eða 9%.

Þar kemur einnig fram að 42% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í fyrra ætla að kjósa hann aftur núna.

Úr Bjartri framtíð í Samfylkinguna eða VG

Alls ætla 31% af þeim sem kusu Bjarta framtíð síðast að kjósa Samfylkinguna um næstu helgi og 24% af þeim sem kusu Bjarta framtíð síðast ætla að kjósa Vinstri græna.

Aðeins 12,3% þeirra sem kusu Bjarta framtíð árið 2016 ætla að halda tryggð við flokkinn í komandi kosningum.

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar ...
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert

44% ætla að kjósa Viðreisn aftur

Samkvæmt könnuninni ætla 44% þeirra sem kusu Viðreisn á síðasta ári að kjósa flokkinn aftur um næstu helgi. Flestir þeirra sem ætla að kjósa annan flokk í ár ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða 16%.

Alls ætla 81% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í fyrra að kjósa flokkinn aftur í ár. Tryggðin er mun minni þegar Píratar eru annars vegar því 54% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra ætla að kjósa hann aftur í ár. 

21% þeirra sem kusu Pírata í fyrra ætla að kjósa Vinstri græna í þetta sinn og 17% þeirra sem kusu Pírata í fyrra ætla að kjósa Samfylkinguna.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Tryggð hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum

Tryggð samfylkingarfólks við flokk sinn er enn meiri en hjá sjálfstæðismönnum því 84% þeirra sem kusu Samfylkinguna í fyrra ætla að kjósa flokkinn aftur. Flestir sem ætla að kjósa annan flokk en Samfylkinguna í þetta sinn ætla að kjósa Vinstri græna, eða 8%.

Tryggðin er einnig mikil á meðal fylgismanna Vinstri grænna því 77% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra ætla að kjósa hann aftur í ár. 13% þeirra sem kusu Vinstri græna í fyrra ætla aftur á móti að kjósa Samfylkinguna.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur einnig fram að 42% þeirra sem kusu í fyrra aðra flokka eða lista en þá flokka sem voru á síðasta þingi ætla að kjósa Flokk fólksins í þetta sinn. 18% þeirra sem kusu aðra flokka eða lista ætla að kjósa Miðflokkinn.

Könnunin var gerð dagana 16. til 19. október. Úrtakið var 3.900 manns og um var að ræða bæði síma- og netkönnun. Fjöldi svarenda var 2.395, sem er 62% þátttökuhlutfall.

mbl.is