Þingflokkur Sjálfstæðisflokks aldrei minni

Ekki horfa á mig.
Ekki horfa á mig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkkurinn fær 25,2% fylgi á landsvísu og 16 þingmenn kjörna. Þetta er næstversta útkoma flokksins í alþingiskosningum, en verstu kosningu sína fékk hann árið 2009 í kjölfar hruns fjármálakerfisins, 23,7%. Þingflokkurinn er þó jafnstór og árið 2009 og hefur aldrei í lýðveldissögunni verið minni.

Bjarni Benediktsson hefur nú leitt flokkinn í fernum kosningum og uppskorið fjórar af fimm verstu útkomum flokksins frá stofnun.

Flokkurinn tapar fimm þingmönnum frá kosningunum fyrir ári, einum í hverju kjördæmi utan Reykjavíkurkjördæmis norður. Vilhjálmur Bjarnason (SV), Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis (S), Valgerður Gunnarsdóttir (NA), Teitur Björn Einarsson (NV) og Hildur Sverrisdóttir (Rvk-S) missa öll þingsæti sín en engin nýliðun er í þingflokknum.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði Auðunn Níelsson

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir Sjálfstæðisflokkinn hafa verið á pari síðustu daga, en telur að margir hafi átt von á því að þeir myndu rísa meira í blálokin líkt og raunin varð í fyrra. „Ég held að þessi úrslit hljóti að vera þeim ákveðin vonbrigði. Þetta er næstversta útkoma flokksins í kosningum.“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kosningasjónvarpi RÚV í gær að sótt væri að flokknum úr tveim áttum. Annars vegar frá Viðreisn og hins vegar Miðflokki.

„Tilkoma Miðflokksins hefur örugglega haft áhrif á gengi sjálfstæðismanna, ég held að það sé alveg víst,“ segir Grétar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert