„Hlýt að hafa verið óæskilegur“

Vilhjálmur Bjarnason er eðlilega ekki sáttur við kosningaúrslit helgarinnar.
Vilhjálmur Bjarnason er eðlilega ekki sáttur við kosningaúrslit helgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, náði ekki endurkjöri á þing í kosningunum á laugardag. Hann hafði verið þingmaður flokksins frá árinu 2013.

„Þú þarft ekkert að spyrja að því, liggur það ekki í augum uppi? Ég ætla að fjalla um þetta í ævisögu minni sem er í tölvunni núna,“ segir Vilhjálmur aðspurður hvernig honum líði með þessi úrslit.

Vilhjálmur, skipaði fimmta sæti listans í Suðvesturkjördæmi, en flokkurinn fékk fjóra menn kjörna. Hann er vægast sagt ósáttur við úrslitin, líkt og svar hans hér að ofan ber með sér, enda hefði hann átt að vera í fjórða sæti listans, miðað við niðurstöðu prófkjörs flokksins á síðasta ári. Hann færðist hins vegar niður í fimmta sætið þegar Bryndís Haraldsdóttir var færð úr fimmta sæti upp í annað sætið. Sjálfstæðisflokkurinn notaðist við óbreytta lista fyrir kosningarnar um helgina.

„Ég fékk kjör í fjórða sæti og fjórða sætið var haft af mér. Það þarf ekkert að ræða það meira. Það geta allir skilið þá tilfinningu.“ Vilhjálmur segir óþarfi að leyna því að hann er ekki hress.

„Maður fer náttúrulega í prófkjör á þeim reglum sem maður heldur að séu í gildi. Það að breyta reglum eftir á og hagræða úrslitum heitir nú kosningasvindl á sumum stöðum. Það er ágætt að setja reglur um hvernig úrslit eigi að vera og ef einhver er óæskilegur í prófkjöri þá er ágætt að hann viti það fyrirfram.“

Upplifðir þú þig sem óæskilegan?

„Fyrst það var hægt að setja hausinn á mér undir þá hlýt ég að hafa verið óæskilegur.“

„Blóðþrýstingurinn er í lagi, þá er flest í lagi“

Hann vill ekki segja hvort hann er almennt ósáttur við Sjálfstæðisflokkinn. Segir fólk bara geta lesið um það í ævisögunni þegar hún verður gefin út.

Svekkelsi Vilhjálms er líklega enn meira vegna þess hve litlu munaði að hann næði kjöri og lengi vel leit út fyrir að hann kæmist inn. „Ætli ég sé ekki þingmaður númer 64 eða 65. Ætli ég sé ekki næstur inn ef kjördæmaskipan væri eðlileg.“

Vilhjálmur vill þó ekki meina að síðustu dagar hafi verið honum erfðir. „Blóðþrýstingurinn er í lagi og þá er flest í lagi. Ef ég er spurður þá svara ég bara eins og skapið er hverju sinni.“

Aðspurður hvað taki nú við hjá honum, fyrir utan ævisöguskrif, segir hann: „Það eru nú fjögur prósent líkur á því að ég verði dauður innan árs, samkvæmt lífslíkum, þannig eigum við ekki að sjá hvað gerist bara,“ segir Vilhjálmur. Ef svo fer hins vegar að hann tóri, er hann með verkefni í pokahorninu, sem hann vill ekki gefa upp að svo stöddu.

mbl.is