Hverjir þurfa að samþykkja?

mbl.is

Stjórnarsáttmáli fyrirhugaðrar ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verður lagður fyrir stofnanir flokkanna annað kvöld til samþykktar eða synjunar. En hvaða stofnanir eru þetta?

Flokksráð VG mun fjalla um stjórnarsáttmálann en í ráðinu sitja 40 landsfundarkjörnir fulltrúar en auk þeirra eiga sæti í ráðinu aðalmenn í stjórn, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar flokksins, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga, fulltrúar ungliðahreyfingar flokksins og Eldri vinstri grænna.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins er skipað með þeim hætti að kjördæmisráð kjósa árlega á aðalfundi einn fulltrúa fyrir hverja þúsund kjósendur flokksins í síðustu alþingiskosningum í því kjördæmi og helmingsbrot þeirrar tölu eða meira. Fulltrúatala kjördæmis má þó aldrei vera lægri en nemur heildartölu þingmanna kjördæmisins.

Landssambönd Sjálfstæðisflokksins kjósa síðan hvert um sig átta menn í flokksráð og auk þess einn fulltrúa fyrir hverja þúsund félaga og helmingsbrot þeirrar tölu eða meira. Sjálfkjörnir eru formaður flokksins, sem jafnframt er formaður ráðsins, varaformaður, ritari, miðstjórn, framkvæmdastjórn og fjármálaráð flokksins.

Enn fremur eru fulltrúar í upplýsinga- og fræðslunefnd Sjálfstæðisflokksins sjálfkjörnir, stjórn sveitarstjórnaráðs og fastráðnir starfsmenn flokksins í fullu starfi, formenn og meðstjórnendur málefnanefnda, alþingismenn, frambjóðendur í aðalsætum framboðslista fyrir síðustu þingkosningar, sveitarstjórnarmenn í aðalsætum, stjórnir kjördæmisráða og fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Miðstjórn Framsóknarflokksins skipa um 200 fulltrúar sem kjörnir eru á kjördæmisþingum til eins árs í senn og er þar miðað við einn fulltrúa á hverja eitt hundrað félagsmenn í hverju kjördæmi eða brot af þeirri tölu umfram 50. Þriðjungur fulltrúa skal vera úr hópi ungra framsóknarmanna eða undir 35 ára.

Þess utan eiga sæti alþingismenn Framsóknarflokksins og ráðherrar flokksins, landsstjórn og framkvæmdastjórn, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar sem eru félagsmenn, aðalmenn í sveitarstjórnarráði flokksins, stjórn og varastjórn launþegaráðs hans og sjö fulltrúar sem kosnir eru af landsstjórn.

Flokksráð VG mun funda klukkan 17:00 á Grand hóteli, flokksráð Sjálfstæðisflokksins klukkan 16:30 í Valhöll og miðstjórn Framsóknarflokksins klukkan 20:00 á Hótel Sögu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert