Unnur Brá fer ekki fram í borginni

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að einbeita sér áfram …
Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að einbeita sér áfram að landsmálunum. mbl.is/Eggert

„Ég hef tekið ákvörðun og ég mun ekki gefa kost á mér í Reykjavík,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Unnur Brá var gestur í þættinum Vikulokin á Rás 1 í dag. Hún hefur legið undir feldi í nokkurn tíma þar sem hún íhugaði að bjóða sig fram fyrir flokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Frétt mbl.is: Unnur Brá liggur undir feldi

Fram kom í máli Unnar Brár að leitað hefði verið til hennar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor. „Það hefur verið leitað til mín, ég hef reynsluna úr sveitarstjórnarmálum,“ sagði Unnur Brá, sem hefur starfað í stjórnmálum í 12 ár.  

„Það er svo notalegt undir þessum feldi, ég hef haft það gott þar,“ sagði Unnur Brá, áður en hún greindi frá ákvörðun sinni. Hún segist samt sem áður hafa áhuga á borgarmálunum, en að hún ætli að einbeita sér áfram að landsmálunum.

Hún sé því frekar að lýsa yfir framboði í prófkjöri flokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Hún hefur hins vegar fulla trú á því að núverandi ríkisstjórn nái að sitja út kjörtímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert