Elliði skipar fimmta sæti í Eyjum

Elliði Vignisson, leiðtogi og bæjarstjóraefni listans, skipar fimmta sæti listans ...
Elliði Vignisson, leiðtogi og bæjarstjóraefni listans, skipar fimmta sæti listans en hann óskaði sjálfur eftir því. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hildur Sólveig Sigurðardóttir skipar fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta er í fyrsta sinn í 20 ár sem kona skipar það sæti á framboðslista flokksins.

Framboðslisti flokksins var samþykktur á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum í kvöld.

Elliði Vignisson, leiðtogi og bæjarstjóraefni listans, skipar fimmta sæti listans en hann óskaði sjálfur eftir því. „Að vera leiðtogi snýst ekki um stöðu eða sæti, ætli maður sér að vera leiðtogi verður maður að vera tilbúinn til að hlusta og bregðast við,“ er haft eftir Elliða í tilkynningu frá fulltrúaráðinu.

Elliði segir að eftir að hafa leitt listann úr fyrsta sæti í 12 ár vilji hann taka umræðu um þörfina á valddreifingu alvarlega. „Ég get að mörgu leyti tekið undir þá skoðun að það fylgir því lýðræðishalli að vera í senn í öruggasta sætinu, vera bæjarstjóraefni, oddviti og sá sem er með langmestu reynsluna.  Þessu vil ég mæta með því að færa mig niður í framboðssæti sem að við lítum á sem sæti varabæjarfulltrúa. Ég vil líka líta á það sem skref til að skapa aukna sátt að víkja sæti fyrir ungt og nýtt fólk sem annars hefði ef til vill orðið að víkja af vettvangi bæjarmálanna,“ segir Elliði, sem kvíðir ekki að leiða listann sem varabæjarfulltrúi.  

Hildur Sólveig Sigurðardóttir segir það ekki sjálfgefið að ungri konu sé falið hlutverk sem þetta og telur hún það sýna styrk flokksins. „Við viljum öll taka þátt í þeim verkefnum sem fram undan eru af áhuga og festu, til heilla fyrir íbúa Vestmannaeyja,“ er haft eftir Hildi Sólveigu í tilkynningu.

Framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum skipa:   

1. Hildur Sólveig Sigurðardóttir sjúkraþjálfari

2. Helga Kristín Kolbeins skólameistari

3. Trausti Hjaltason framkvæmdastjóri

4. Eyþór Harðarson útgerðarstjóri

5. Elliði Vignisson, oddviti og bæjarstjóri

6. Margrét Rós Ingólfsdóttir félagsfræðingur

7. Sigursveinn Þórðarson svæðisstjóri

8. Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri

9. Andrea Guðjóns Jónasdóttir sjúkraliði

10. Gísli Stefánsson æskulýðsfulltrúi

11. Agnes Stefánsdóttir framhaldsskólanemi

12. Vignir Arnar Svafarsson sjómaður

13. Klaudia Beata Wróbel, nemi og túlkur

14. Bragi Ingiberg Ólafsson, eldri borgari

Listi Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.
Listi Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina