„Lítil persóna í stórri stöðu“

Framboðslisti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Elliði er í neðri röðinni, lengst ...
Framboðslisti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Elliði er í neðri röðinni, lengst til vinstri. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að óska eftir því að skipa fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í bænum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Ég hafði góðan tíma til þess að hugsa þetta og var allan tímann meðvitaður um þessar raddir sem voru meðal félaga minna í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Elliði á þar við raddir um að þörf væri á aukinni valddreifingu.

Elliði segist taka að mörgu leyti undir skoðun félaga sinna og bendir á að hann hafi setið helmingi fleiri fundi og verið í lengri tíma í bæjarstjórninni heldur en þeir fjórir fulltrúar sem eru fyrir ofan hann á listanum til samans.

Hann segir að með því að færa sig niður í framboðssæti, sem þau í Sjálfstæðisflokknum líta á sem sæti varabæjarfulltrúa, sé ljóst að umboð hans verði allan tímann háð lýðræðislegu umboði kjörinna fulltrúa fyrir ofan hann.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þrýstingur á að taka 1. sætið

Spurður hvort einhver þrýstingur hafi verið settur á ákvörðun hans segir hann að þvert á móti hafi verið þrýstingur á að hann tæki fyrsta sætið. Uppstillingarnefnd hafi boðið honum það. Hann nefnir að hann hafi verið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins síðan 2002 til sveitarstjórnarkosninga, fyrst í fjórða sætinu en síðustu 12 ár í því fyrsta. „Þetta er í fyrsta skiptið sem ég finn að ég þurfi svolítið að berjast fyrir því að fá það sæti sem ég sóttist eftir, þ.e. fimmta sætið, því þrýstingur var á að ég tæki fyrsta sætið.“

Elliði bætir við, spurður hvort áhætta fylgi því ekki að sækjast eftir fimmta sætinu fyrir hann persónulega: „Fái listinn sem ég leiði nú úr fimmta sæti ekki lýðræðislegt umboð þá er ég í þeirri stöðu eins og svo margir aðrir að finna mér nýjan starfsvettvang. Það er ekkert fyrirkvíðanlegt. Ég er bara lítil persóna í stórri stöðu.“

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Vill hafa þunga undiröldu 

Hann vill ekki meina að nýtt bæjarmálafélag sem verður stofnað í Vestmannaeyjum í kvöld, sem hugsanlega mun bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum, hafi haft áhrif á ákvörðun sína. Talið er að um sé að ræða sérframboð óánægðra sjálfstæðismanna í bænum. „Ég þekki ekkert til þess veruleika. Þessi ákvörðun er fyrst og fremst til þess að mæta réttmætum ábendingum um að það geti fylgt þessu lýðræðishalli.“

Einn af skipuleggjendum stofnfundarins í kvöld talaði um að þung undiralda væri í Eyjum. Markmið félagsins er að bæta samfélagið í bænum.

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði segist hafa búið í næstum hálfa öld í Vestmannaeyjum og kannast ekki við annað en að mjög skiptar skoðanir séu um allt í Eyjum. „Þetta er lýðræðislegur staður þar sem fólk hefur sterkar skoðanir. Það er svoleiðis núna eins og allan þann tíma sem ég hef verið í stjórnmálum,“ greinir hann frá og bendir á að fyrsta kjörtímabil sitt á árunum 2002 til 2006 hafi verið þrír meirihlutar og hver bæjarstjórinn hafi setið í embætti á eftir öðrum.

„Ég vona að það verði alltaf þannig í Vestmannaeyjum að það verði þung undiralda. Þannig eiga hlutirnir að vera. Það á að skiptast á skoðunum og takast á. Það er svo hlutverk okkar leiðtoganna að bregðast við á málefnalegan máta.“

Spurður út í hið nýja bæjarmálafélag segir hann tilgang þess vera mjög jákvæðan, að gera samfélagið betra. Hann óttast ekki framboð þess, verði það raunin.

mbl.is