Prófkjör tryggi ekki næga fjölbreytni

Elliði vildi sjálfur leiðtogaprófkjör en sú hugmynd hlaut ekki hljómgrunn.
Elliði vildi sjálfur leiðtogaprófkjör en sú hugmynd hlaut ekki hljómgrunn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, hefur áhyggjur að því að ef farin sé leið prófkjörs takist ekki að tryggja eðlilega aldurs- og kynjadreifingu frambjóðenda á lista. Fólk innan Sjálfstæðisflokksins virðist ekki sammála um það hvaða leið henti best en Elliði talaði sjálfur fyrir leiðtogaprófkjöri.

Prjófkjör almenna reglan

Elliði segir þrjár tillögur hafa verið fluttar í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum um val á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Fyrsta tillaga var uppstilling sem hlaut 57% atkvæða, sem dugði ekki sökum þess að aukinn meirihluta þarf, eða 2/3 atkvæða, til þess að bregða frá almennri reglu Sjálfstæðisflokksins. Prófkjör eru almenna reglan við val á lista flokksins.

Fyrsta tillagan var felld á fundi fulltrúaráðs 27. desember og segir Elliði að fundinum hafi verið talin trú um að sökum þess að tillaga hafi verið felld, væri þar með ákveðið að fara í prófkjör. Það hafi svo ekki reynst rétt því það þyrfti samþykki meirihluta til þess að fara í prófkjör. Í því samhengi hafi verið boðað til nýs fundar 10. janúar.

10 sinnum fleiri koma að valinu

Á þeim fundi var flutt tillaga um prófkjör og náði hún ekki einföldum meirihluta, 26 kusu með en 28 á móti. Þá hafi þriðja tillaga verið flutt um röðun á lista og var hún samþykkt með 75% atkvæða. Elliði segir röðun að mörgu leyti samblöndu af prófkjöri og uppstillingu. Allir kjörgengir í sveitarfélaginu geti gefið kost á sér og kosið er um röðun á listann innan fulltrúráðsins. Aðspurður segir Elliði telja að um 70 manns í heild sitji í fulltrúaráði.

Það sé því í raun fulltrúaráðið sem velur á listann en ekki nefnd eins og verið hefur. „Hingað til höfum við verið með uppstillingarnefnd sem hafa verið 7 aðilar en núna eru það um það bil 10 sinnum fleiri sem koma að valinu,“ segir Elliði. Hann var sjálfur í fyrsta skipti á lista Sjálfstæðisflokksins árið 2001 og hefur hann verið á lista allar götur síðan. Hins vegar séu 3 af 5 núverandi bæjarfulltrúum Sjálfstæðiflokksins á sínu fyrsta kjörtímabili. Þau séu öll á aldri ungra sjálfstæðismanna og þar af tvær konur.

Þarf að tryggja aðkomu kvenna og ungs fólks

Elliði talaði sjálfur fyrir leiðtogaprófkjöri, en hann telur að með því móti sé hægt að tryggja betur aðkomu ungs fólks og eðlilega aldurs- og kynjadreifingu. Hann bendir á Sjálfstæðisflokkurinn sé nýbúinn að fara í gegnum prófkjör í Suðurkjördæmi.

„Niðurstaðan úr því var að það eru þrír karlar í þremur efstu sætunum og þar af tveir þeirra á sjötugsaldri og í þeirri stöðu sem núna er upp komin þá fannst mér best að hafa leiðtogaprófkjör, ég hræddist það ekkert að fara í gegnum slíkt. Annaðhvort myndi ég endurnýja mitt umboð eða ég myndi bara hverfa til annarra starfa ef ég myndi ekki sigra það leiðtogaprófkjör.“

Á fundi fulltrúaráðs hafi komið fram rök með og á móti prófkjöri sem fólk hafi svo greitt atkvæði um. Elliði segir fulltrúa Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna, hafa sagt frá því að stjórn félagsins hafi fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að Eyverjar mæltu gegn prófkjöri. „Einfaldlega vegna þess að þeir óttuðust hlut ungs fólks.“

Þá hafi fjölmargar konur sig um málið, að sögn Elliða, og þar á meðal núverandi og fyrrverandi bæjarfulltrúar. „Ótti þeirra var sá að kynjadreifing yrði ekki tryggð. Að reynslan sýndi að miðaldra hvítum körlum, eins og mér, myndi að jafnaði ganga best í prófkjörum.“ Hann segir að einnig hafi mörg góð rök með prófkjöri komið fram. „Fólk benti á að það koma þá fleiri að valinu, þetta sé svona lýðræðisleg leið til að nálgast hina lýðræðislegu niðurstöðu sem fylgir kosningunum.“

Hefur ekki minnstu áhyggjur af klofningi

Ljóst er að skiptar skoðanir eru um málið á meðal sjálfstæðismanna í Vestmanneyjum. Til að mynda hefur Elís Jónsson, sem hafði gefið út að hann hygðist gefa kost á sér í próf­kjöri flokks­ins, sagt miklar líkur á því að óánægðir Sjálfstæðismenn stofni nýtt framboð.

Hefur Elliði áhyggjur af því að klofningur verði úr Sjálfstæðisflokkinum í Vestmannaeyjum? „Ekki minnstu, ef það verður klofningur þá bara verður klofningur. Við lifum í lýðræðisþjóðfélagi, öllum er frjálst að bjóða sig fram. Ef fólk á ekki lengur leið með stjórnmálaflokki og telur að hugmyndafræði sín sé betur tryggð með að annaðhvort starfa með öðrum framboðum eða stofna ný þá er það bara þannig. Við sjálfstæðfólk í Eyjum leggjum verk okkar óhrædd í dóm kjósenda og vitum að á kjördag eru það þau verk sem telja en ekki innansveitarkrónika sem þessi.“

Páll telur niðurstöðuna óheppilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestmannaeyjum.
Páll telur niðurstöðuna óheppilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestmannaeyjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstaðan óheppileg fyrir flokkinn

Páll Magnússon, þingmaður sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir niðurstöðu funda fulltrúaráðsins hafa komið sér á óvart. Páll sat sjálfur báða fundina. Hann segir að eftir fyrri fund hafi samstaða tekist í stjórn fulltrúaráðsins um að leggja fram sameiginlega tillögu allra stjórnarmanna um prófkjör.

„Undir þá tillögu skrifuðu líka þeir sem höfðu á fyrri fundinum flutt tillögu um uppstillingu. Ég taldi að það hefði þá skapast einhvers konar samstaða um það að þetta prófkjör yrði haldið. Það urðu mér mikil vonbrigði að þetta skyldi fara eins og það fór á þessum fundi, að prófkjörið skyldi hafa verið fellt með tveimur atkvæðum, 26 -28, og ég tel að sú niðurstaða sé mjög óheppileg fyrir Sjálfstæðiflokkinn í Vestmannaeyjum,“ segir Páll við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina