Sameiningarmálin verði stór fyrir austan

Gunnar Gunnarsson, ristjóri Austurfréttar og áhugamaður um austfirsk sveitarstjórnarmál.
Gunnar Gunnarsson, ristjóri Austurfréttar og áhugamaður um austfirsk sveitarstjórnarmál. mbl.is/Eggert

„Án þess að ætla að fullyrða beinlínis um það hver umræðan er hjá fólkinu á götunni, þá eru ákveðin þemu sem hafa verið að koma upp í umræðum sveitarstjórnarmanna að undanförnu,“ segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar í samtali við Morgunblaðið.

Gunnar má með sanni kalla sérfróðan í málefnum Austurlands og hann segir að sameiningarmálin verði stór í landshlutanum á komandi kjörtímabili. „Það bíður nýrrar sveitarstjórnar í Fjarðabyggð til dæmis að fylgja eftir sameiningu við Breiðdalshrepp. Það verður rætt um sameiningu á hinum stöðunum líka, sérstaklega hjá þessum fjórum - Fljótsdalshéraði, Borgarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi. Það kom skoðanakönnun um daginn sem að sýndi fram á að íbúar þessara sveitarfélaga hefðu áhuga á að sameinast,“ segir Gunnar.

Einungis einn listi hefur komið fram á Djúpavogi, sem er samkrull úr þeim listum sem hafa átt fulltrúa í sveitarstjórn. Það segir Gunnar merki um að sú sveitarstjórn fari að „einhenda sér í að ákveða í hvaða átt sé best að sameinast.“ Annars þurfi Djúpavogsbúar að skoða stækkun skólahúsnæðisins á kjörtímabilinu, en þar er mikið af ungum íbúum miðað við marga aðra staði.

Gunnar segir að Seyðfirðingar þurfi að ræða sína framtíðarsýn varðandi sameiningarmál og að þeir muni einnig ræða hvernig þeir geti fengið ungt fólk til staðarins.  „Þar er búið að vera mikið aðhald í fjármálum síðustu ár. Ég held að sveitarfélagið sé komið nokkuð vel fyrir vind og þar sé krafa um að fara að vinna í málum sem hafa orðið undir,“ segir Gunnar.

„Mér heyrist Seyðfirðingar sammála um að sameinast upp í Hérað. Það kom mér á óvart í könnuninni um daginn að það var enginn áhugi fyrir Fjarðabyggð á Seyðisfirði. Ég átti alveg von á að sjá hann, en það var ekki.“

Gunnar segir að Seyðfirðingar hafi sýnt mikið aðhald í rekstri ...
Gunnar segir að Seyðfirðingar hafi sýnt mikið aðhald í rekstri sveitarfélagsins undanfarin ár. mbl.is/Eggert

Hroki frá Héraðinu

„Ég held að í Fjarðabyggð séu kjósendur sem hafa hátt oft að hugsa um hag einstakra staða frekar en heildarinnar og þá erum við að horfa á umhverfismál á ákveðnum stöðum. Menn fóru líka í ákveðnar fjárfestingar í von um að finna olíu og það kæmi mér á óvart ef það yrði ekki spurt út í það,“ segir Gunnar um þau mál sem hann telur að íbúar í Fjarðabyggð séu að velta fyrir sér nú fyrir kosningar.

Hann segir sveitarfélagið Fjarðabyggð standa vel fjárhagslega og gerir ráð fyrir að það séu eflaust margir „sem vilji komast í þann pening“ og fara í framkvæmdir á borð við hafnarframkvæmdir og ásýnd síns bæjarfélags. Þar liggi ennfremur fyrir að ráðast þurfi í stækkun leikskóla bæði á Reyðarfirði og Eskifirði. Hann nefnir líka að oft þyki Stöðfirðingum og Fáskrúðsfirðingum þeir aðeins gleymast innan sveitarfélagsins.

Gunnar er Fljótsdælingur að upplagi en býr og starfar á Egilsstöðum. „Fljótsdalur er í svipaðri stöðu og Borgarfjörður, þar er mikil andstaða við sameiningu og ég held að hún snúist meðal annars um það að íbúar í Fljótsdal upplifi einhvern hroka frá Héraðinu, að þeim sé tekið eins og sjálfsögðum hlut og eigi að sameinast, eiginlega af því bara.“

Annars segir Gunnar að sveitarstjórnin í Fljótsdalshreppi þurfi að horfa í augu við erfiða stöðu í sauðfjárrækt, hækkandi meðalaldur og fækkun íbúa í sveitarfélaginu.

Vopnafjörður treystir á Granda

Gunnar segir að á Vopnafirði sé búin að vera ákveðin uppbygging og gengið hafi ágætlega í kring um höfnina. Þar var hins vegar erfið staða í atvinnumálum fyrir um tveimur árum síðan þegar niðursveifla varð í uppsjávarfiski.

„Þá kom Grandi inn, Vopnafjörður treystir á HB Granda og ég held að menn verði að horfa til þess hvernig þeir skjóta frekari stoðum undir atvinnulífið þar. Þetta er líka landbúnaðarsvæði og við höfum séð að þau eru viðkvæm,“ segir Gunnar og nefnir sérstaklega að Vopnfirðingar hafi ekki notið góðs af fjölgun ferðamanna í jafn miklum mæli og íbúar á mörgum öðrum svæðum á Austurlandi.

Á Djúpavogi er er bara eitt framboð komið fram fyrir ...
Á Djúpavogi er er bara eitt framboð komið fram fyrir kosningarnar. mbl.is/Eggert

Meirihluti sveitarstjórnar á Vopnafirði sprakk í lok nóvember á síðasta ári vegna deilna um samstarfið sveitarstjórann þar í bæ, Ólaf Áka Ragnarsson. „Það klofnaði meirihlutinn og nýr var settur saman sem mat það sem svo að það væri ekki gott að skipta um sveitarstjóra sex mánuðum fyrir kosningar. En ég veit ekki hvað þetta ristir þar, en hef kannski trú á að eitthvað því tengt geti komið upp á yfirborðið í þessum kosningum,“ segir Gunnar.

Tekist á um fráveituna

Íbúar í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði hafa tekist á um fráveitumál – hreinsun og losun skólps út í Lagarfljótið. Gunnar útskýrði þau fyrir blaðamanni í miklum smáatriðum, en það verður ekki rakið nákvæmlega hér. „Þetta er heitt,“ segir Gunnar og nefnir hann að aðsendar greinar á Austurfrétt um fráveitumálin fái alltaf mikinn lestur. „Þetta mál er rætt og um þetta mál verður spurt,“ segir Gunnar.

Hitt stóra málið á Fljótsdalshéraði segir Gunnar vera skólamál, uppbygging leikskóla, en þar hefur verið töluverður kurr á meðal foreldra ungra barna yfir því að koma börnum sínum ekki nógu snemma í dagvistun.

„Mér finnst raunar að í öllum sveitarfélögum ættu skólamálin alltaf að vera stærsta málið því að þar eru 50% útgjalda, en menn eru frekar að rífast um blómabeðin,“ segir Gunnar.

Nánar er rætt við íbúa á Austurlandi um stóru málin fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Morgunblaðinu og hér á mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina