„Ljósin stillt í þágu fólks“

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Hauksdóttir, borgarstjóraefni Miðflokksins, og Pawel Bartoszek, frambjóðandi Viðreisnar í borgarstjórnarkosningunum, tókust á um borgarlínu og „bestun“ umferðarljósa í þætt­in­um Þing­vell­ir á K100 í morg­un.

Miðflokkurinn leggur til að strætóferðir verði tíðari og það verði ókeypis í strætó. „Borgarlína kostar 70 til 100 milljarða,“ sagði Vigdís. „Við erum að tala um að hafa frítt í strætó í 50 ár í stað borgarlínu,“ sagði Vigdís og gagnrýndi framsetningu borgarstjóra á borgarlínu:

„Í glærusýningu Dags og félaga er þetta lest á teinum í sól og blíðu. Það væri gott ef þeir sem tala fyrir borgarlínu gætu útskýrt hvað þetta raunverulega er. 

„Bestun“ greiði fyrir umferð

Björt Ólafsdóttir þáttastjórnandi spurði Vigdísi hvernig flokkurinn ætlaði að draga úr mengun ef hann stefndi ekki að því að minnka bílaumferð. „Ef við stillum ljósin og bætum aðgengi fjölskyldubílsins. Það myndast langar biðraðir þegar ljós eru ekki stillt en bíll mengar mest þegar hann er að taka af stað á ljósum,“ sagði Vigdís en hún sakar núverandi borgarstjórnarmeirihluta um þvingandi aðgerðir:

„Það er verið að þrengja að fjölskyldubílnum og pína fólk úr sínum fjölskyldubíl til að hjóla eða í borgarlínu.

Pawel tók dæmi um gönguljós yfir Miklubraut, við Klambratún, um ljós sem væru í þágu fólks en ekki bíla. Núna komi grænt gönguljós um leið og fólk ýti á takkann en áður þurfti fólk að bíða í um tvær mínútur, til að hleypa umferð fram hjá.

„Ljósin eru bestuð í þágu fólks, sem kemst þá yfir götuna. Það kemur rautt ljós um leið og fólk ýtir á gönguljósið. Við gætum auðvitað látið fólk bíða í tvær mínútur til að greiða fyrir umferð eða það sem væri best; að það kæmi aldrei grænt ljós hjá gangandi. Það myndi greiða fyrir umferð,“ sagði Pawel hæðnislega.

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Frekar borgarlína en fleiri mislæg gatnamót

Þáttastjórnandi sneri talinu að borgarlínu sem Vigdís sagði að væri ekkert annað en draumsýn. Pawel benti á að kostnaður fyrir hvern kílómetra borgarlínu væri 1 til 1,5 milljarðar og vissulega sé verkefnið dýrt.

„Þetta er verkefni sem hægt er að áfangaskipta en það þarf ekki annað hvort að byggja 60 kílómetra leið eða sleppa því,“ sagði Pawel og bætti við að það væri einn af kostunum sem borgarlína hefði fram yfir Sundabraut, sem Vigdís talar mjög fyrir:

„Það væri ekki hægt að byggja hálfa Sundabraut. Ætti þá að hætta á miðri brú? Valið er annaðhvort eða og okkar forgangsröðun er sú að það verði frekar borgarlína en fleiri mislæg gatnamót,“ sagði Pawel.

mbl.is

Bloggað um fréttina