„Ég mun sakna útsýnisins“

Skúli Guðbjarnarson, veitingamaður á Álftanesi.
Skúli Guðbjarnarson, veitingamaður á Álftanesi. mbl.is/Valli

Skúli Guðbjarnarson veitingamaður hefur búið á Álftanesi í sextán ár og líkað vel. Undanfarin tvö og hálft ár hefur hann ásamt Sigrúnu Jóhannsdóttur konu sinni rekið kaffihúsið og veitingastaðinn Álftanes Kaffi.

„Það hefur gengið vel, alveg samkvæmt áætlun ef svo má segja. Maður var að þessu til að geta lifað af því og það hefur tekist,“ segir Skúli. Hann segir Álftnesinga vera sinn stærsta kúnnahóp, en íbúar úr öðrum hverfum Garðabæjar og nágrannasveitarfélögunum eru einnig reglulegir gestir.

Álftanes Kaffi stendur við Breiðumýri og frá veitingahúsinu er útsýni yfir til Bessastaða. Það mun hins vegar að öllum líkindum breytast þar sem deiliskipulagstillögur gera ráð fyrir lágreistum fjölbýlishúsum í grenndinni. Undirskriftasöfnun stendur yfir á Álftanesi til að fá Garðabæ til að falla frá þessum uppbyggingaráformum, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

„Ég verð að segja það að ég mun sakna útsýnisins, því ég missi útsýnið til Reykjavíkur og Bessastaða og fjallasýnina,“ segir Skúli, en annars segist hann jákvæður fyrir því að byggt verði á þessu svæði, það hafi verið viðbúið og að auknum mannfjölda muni fylgja aukið líf og fjör í hverfinu.

„Það verða þeir sem verða í þessum blokkum sem snúa að Bessastöðum sem hafa útsýni, en aðrir missa það og þannig er það með skipulagningu hverfa. Það var náttúrlega alltaf vitað að þarna kæmi eitthvað. Auðvitað verður viss söknuður í útisvæðunum, en allavega hérna næst mér eru þetta mikið tún og skurðir,“ segir Skúli.

Aðalmálið við þessar breytingar segir Skúli vera að svæðið verði fallegt. Þá verði hann sáttur. Annars segist Skúli hafa verið ánægður með þjónustuna á Álftanesi síðan að bærinn varð hluti af Garðabæ. 

„Hún hefur breyst. Maður sér það að umhirða útisvæða er mun betri. Ég tek alveg sérstaklega eftir því, það er kannski af því að ég var einu sinni garðyrkjuverktaki og þá sér maður þetta,“ segir Skúli og hlær.

Rætt er við fleiri íbúa í Garðabæ um málin sem á þeim brenna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Morgunblaðinu og hér á mbl.is í dag.

mbl.is