„Þetta er mikill kosningasigur“

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mikill kosningasigur og ég er ekki síst ánægð með gott gengi Viðreisnar um allt land þar sem við erum að bjóða fram í fyrsta skiptið á sveitarstjórnarstigi,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í samtali við mbl.is. 

Viðreisn áttu góðu gengi að fagna í Reykjavík en listi flokksins fékk 8,2% atkvæða, tvo menn inn, og er nú kominn í oddastöðu í viðræðum um myndun næstu borgarstjórnar. 

Þórdís segir að staðan sé mjög sérstök. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin séu tveir turnar en Viðreisn sé leiðandi afl á meðal hinna flokkanna. 

„Það var ýmislegt látið flakka í kosningabaráttunni eins og þegar Píratar gáfu út að þeir gætu ekki hugsað sér að vinna með Sjálfstæðismönnum og Sósíalistar ekki heldur. Þar af leiðandi verður staðan snúnari en okkur ber skylda að vinna saman. Það er verkefnið sem við höfum.“

Spurð hvaða málefni Viðreisn setji á oddinn í viðræðum um myndun meirihluta borgarstjórnar nefnir Þórdís þrjá málaflokka. Í fyrsta lagi menntamál eins og leikskólamál. Í öðru lagi atvinnumál og í þriðja lagi velferðarmál, og nefnir hún húsnæðismarkaðinn í því samhengi. 

Núna komum við til með að setjast niður, allir með sinn óskalista, og þetta þarf síðan bara að fléttast saman.

Blaðamaður mbl.is spyr Þórdísi hversu stóran þátt samgöngumál spili í viðræðunum. 

„Við höfum allan tímann sagt að við séum hlynnt Borgarlínunni og að við viljum greiða götu einkabílsins í gegnum stokka. Við erum líka fylgjandi þéttingu byggðar, ekki bara í miðborginni, heldur í allri byggð. Aðalskipulag borgarinnar nær fram til 2030 og við erum sammála því í stórum dráttum. Við komum inn í kosningabaráttuna með skýr svör við þessu en það sem verður að fara í eru menntamál, atvinnumál og velferðarmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert