Vægi atkvæðanna er hvergi meira

Leikskólabörn á gangi á Skagabraut á Akranesi, sem er fjölmennasta …
Leikskólabörn á gangi á Skagabraut á Akranesi, sem er fjölmennasta byggðarlagið í Norðvesturkjördæmi. Fagurblátt Akrafjall í bakgrunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Á kjörskrá í Norðvesturkjördæmi í þingkosningunum 25. september eru 21.548 manns eða 8,46% þeirra landsmanna sem hafa kosningarétt. Hið víðfeðma Norðvesturkjördæmi er því sem næst fjórðungur af Íslandi.

Graf/mbl.is

Þarna eru grunnatvinnuvegir í aðalhlutverki; sjávarútvegur, landbúnaður og stóriðja. Fiskeldi og ferðaþjónusta eru greinar sem komið hafa sterkar inn á síðustu árum. Hagsmunir og skilyrði atvinnurekstrar eru alltaf ofarlega í pólitískri umræðu úti á landi, þótt líka sé sagt að í dreifbýli snúist pólitíkin öðru fremur um vegina. Víst er líka að mörg stórverkefni í samgöngumálum bíða úrlausnar í NV-kjördæmi. Þar má nefna uppbyggingu vega um Skógarströnd við innanverðan Breiðafjörð og á Vatnsnesi. Einnig að grafa þurfi jarðgöng um Mikladal, Hálfdán og Súðavíkurhlíð fyrir vestan. Sömuleiðis þurfi betri vegi í sveitum, þaðan sem margir sækja vinnu eða skóla í þéttbýli.

„Í samtölum við frambjóðendur höfum við lagt áherslu á samgöngumál og minnt á að hve hátt hlutfall malarvega er hér,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. „Atvinnumálin eru ofarlega á lista og eins raforkan. Ekki hefur enn verið gengið frá öllu því sem gera átti eftir óveðrið á aðventu 2019 til að tryggja öryggi fólks í langvarandi rafmagnsleysi.“

Vilja góð búsetuskilyrði

„Samgöngur, heilbrigðisþjónusta og góð skilyrði fyrir atvinnulífið; kosningamálin eru svipuð hvar sem borið er niður í kjördæminu,“ segir Páll Snævar Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. „Aðstæður eru um margt svipaðar til dæmis í Borgarfirði og Norðurlandi vestra. Sjávarútvegsmálin koma svo alltaf sterk inn, til dæmis á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Í stóru myndinni er þetta annars þannig að fólk vill góð búsetuskilyrði í sinni heimabyggð og er áfram um úrbætur. Slík mál yfirgnæfa annað úti á landi svo umræða um til dæmis mannréttindi, stöðu minnihlutahópa og slíkt verður aldrei mjög áberandi.“

Graf/mbl.is

Þingmenn Norðvesturkjördæmis eru og verða átta; þar af einn í uppbót. Þá ber líka að hafa í huga að vægi atkvæða er hvergi meira á landinu. Í kosningum til Alþingis árið 2017 voru 2.690 atkvæði á bak við hvert þingsæti í NV en 5.350 í Suðvesturkjördæmi. Styrkleikamunurinn er svipaður enn.

Sé litið á skipan framboðslista nú sést að fólk í „öruggum sætum“ er margt af Akranessvæðinu eða úr Skagafirði. Færri eru af Vestfjörðum þaðan sem margir helstu málafylgjumenn íslenskra stjórnmála fyrr á tíð komu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 11. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert