Telur líklegt að fylgið verði meira

Sigmundur segist vera bjartsýnn fyrir kosninganóttinni og telur líklegt að …
Sigmundur segist vera bjartsýnn fyrir kosninganóttinni og telur líklegt að fylgi flokksins verði meira en kannanir hafa gefið til kynna líkt og í síðustu alþingiskosningum. mbl.is/Unnur Karen

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, greiddi sitt atkvæði í Garðabæ í dag. Hann segir kjördag alltaf skemmtilegan og mikill hátíðarbragur sé á deginum. 

„Það er gaman að kjósa og sjá fólk streyma á kjörstað, auðvitað til þess að kjósa ólíka flokka en allir finna til aukinnar samkenndar á þessum degi vegna þess við erum að taka þátt í lýðræðinu, sem er mikils virði,“ segir Sigmundur í samtali við blaðamann. 

Sigmundur segist vera bjartsýnn fyrir kosninganóttinni og telur líklegt að fylgi flokksins verði meira en kannanir hafa gefið til kynna líkt og í síðustu alþingiskosningum. 

„Mér finnst það líklegt vegna þess að ég hef fundið núna allra síðustu daga mikinn stuðning og áhuga. Það hefur verið fullt hús á öllum fundum sem við höfum haldið og óvenju margir nýir mætt.“

„Besta leiðin til þess að grípa inn í og koma …
„Besta leiðin til þess að grípa inn í og koma á breytingum er að kjósa Miðflokkinn að mínu mati.“ mbl.is/Unnur Karen

Mikil stemning í flokknum

Sigmundur telur valið vera skýrt; ef fólk vill hafa áhrif þá kýs það Miðflokkinn. 

„Nú sjáum við að stjórnarflokkarnir virðast vilja halda áfram óbreyttu samstarfi ef þeir fá tækifæri til þess. Sem þýðir meira af því sama, því er besta leiðin til þess að grípa inn í og koma á breytingum að kjósa Miðflokkinn að mínu mati.“

Hann segir stemninguna innan flokksins ekki hafa verið betri síðan faraldurinn hófst. 

„Þetta var leiðindatími í pólitíkinni meðan faraldurinn reið yfir. Nú þegar það hefur losnað um þetta og við gátum farið að hittast aftur og ræða framtíðina, þá vaknaði mikil stemning sem hefur verið gaman að upplifa undanfarna daga og vikur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert