Oddviti Viðreisnar gagnrýnir Seðlabankastjóra

Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi. mbl.is/Hari

Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, var harðorður í garð Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra í viðtali við Ríkisútvarpið í kvöld. 

Ásgeir sagði í viðtali fyrr í vikunni að hug­mynd­ir um að festa ís­lensku krón­una við evr­una væru „að ein­hverju leyti van­hugsaðar“ og kunni að leiða til hærri stýri­vaxta. 

Festing krónunar við evruna er á meðal kosningaloforða Viðreisnar. 

„Ég veit ekki hvort að það viðtal sem tekið var við Seðlabankastjóra hafi haft neikvæð áhrif fyrir Viðreisn,“ sagði Guðbrandur í samtali við RÚV fyrr í kvöld, en Viðreisn mælist nú með 7,8% atkvæða á landinu öllu. 

„Mér fannst þetta mjög óábyrgt að fá þetta viðtal í loftið rétt fyrir kosningar. Þetta er embættismaður að tjá sig á mjög neikvæðan hátt fyrir stefnuskrá eins flokks og mér finnst það eiginlega bara forkastanlegt að þetta hafi átt sér stað,“ sagði Guðbrandur og bætti við;

„Mér finnst þetta mjög sérstakt og ég veit ekki hvort að Seðlabankastjóri hafi ætlað sér að þetta færi í loftið við þessar aðstæður. Mér er sagt að þessi upptaka af honum hafi átt sér stað fyrir tveimur eða þremur vikum en svo er hún birt bara núna rétt fyrir kosningar þannig að menn gátu ekki farið í einhverjar varnir útaf þessu.“

Þá sagði Guðbrandur að Ásgeir ætti að fara í stjórnmál hefði hann skoðanir um mál sem þessi og bar ummæli hans saman við það ef að forstjóri ÁTVR færi að tjá sig opinberlega um sölu áfengis á netinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert