Óvíst hvort nefndin ljúki störfum í næstu viku

Undirbúningsnefnd við rannsókn kjörbréfa á fundi.
Undirbúningsnefnd við rannsókn kjörbréfa á fundi. mbl.is/Unnur Karen

Birg­ir Ármanns­son, formaður und­ir­bún­ings­nefnd­ar fyr­ir rann­sókn kjör­bréfa, segir nefndina hafa verið með nokkuð langan vinnufund í dag þar sem unnið var úr þeim gögnum sem þegar eru komin og átta sig á því hvað vantar upp á, þau muni halda þeirri vinnu áfram næstu daga.

„Við erum langt komin með að ljúka upplýsingaöflun um ýmsa þætti málsins og erum ennþá svona aðeins að fylla inn í myndina,“ segir Birgir í samtali við mbl.is

„Síðan tekur við ákveðin vinna við það að meta þau gögn sem fram hafa komið og í framhaldinu þurfum við síðan að gera tillögur okkar, þannig að það eru einhverjir fundir eftir.

Við munum funda nokkuð þétt á næstunni áfram og reyna að komast áleiðis í næstu viku en ég þori ekki að segja hvort að við náum að ljúka starfinu þá eða hvort að það dregst eitthvað aðeins lengur.“

Enn vanti upplýsingar til að fylla inn í myndina

Birgir segir nefndina vera langt komna með að ljúka upplýsingaöflun en að það vanti aðeins meiri upplýsingar til að fylla inn í myndina.

„Svo eru auðvitað aðrir þættir í starfinu sem skipta máli, þetta varðandi upplýsingaöflunina lýtur náttúrulega mjög mikið að málsatvikum sem tengjast þeim atriðum sem hafa verið kærð.

Síðan erum við auðvitað samhliða að fara yfir lagalega þætti málsins, svo á endanum þarf nefndin að meta hvaða tillögur hún gerir áður en að hún lýkur störfum.“

mbl.is