Sterk fjárhagsstaða forsenda vaxtar

Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi í Garðabæ sækist eftir oddvitasætinu í prófkjöri …
Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi í Garðabæ sækist eftir oddvitasætinu í prófkjöri sjálfstæðismanna.

Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ, hefur gefið kost á sér í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna, sem fram fer 5. mars. Í ljósi sterkrar stöðu sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu er það ekki ólíklegt til þess að fela í sér bæjarstjórastólinn, en Gunnar Einarsson, núverandi bæjarstjóri, leitar ekki endurkjörs.

Almar hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2014, í bæjarráði frá 2018 og er formaður fjölskylduráðs og öldungaráðs.  Hann er hagfræðingur að mennt, starfar hjá Reiknistofu lífeyrissjóða, en hefur áður starfað á fjármálamarkaði og framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hjá Samtökum iðnaðarins, auk þess sem hann var formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar um sjö ára skeið.  Hann er uppalinn í Garðabænun, ólst upp í Lundahverfinu og fluttist síðar í Lyngmóa, en býr nú á Flötunum ásamt Guðrúnu Zoëga eiginkonu sinni og eiga þau fimm börn.

Morgunblaðið tók Almar tali og spurði hvað hann kæmi helst með að borðinu til að leiða lista sjálfstæðismanna í bænum.

„Ég kem með þekkingu og reynslu á fjármálum. Mér finnst skipta miklu máli að varðveita þá stöðu, sem Garðabær hefur haft. Við höfum notið mjög góðs af því að vera skynsöm í fjármálum, það hjálpar í rekstrinum, því það gefur kraft til uppbyggingar. Við sjáum sem dæmi að fjárfesting í nýju, fjölnota íþróttahúsi er okkur fær vegna þess að fjármálaleg staða er góð. Og það er auðveldara um að tala en í að komast, svo ég legg mikla áherslu það og tel mig hafa þekkingu og reynslu til þess að fást við það.“

Í bæjarmálum frá 2014

Þú þekkir bæjarmálin vel?

„Ég hef verið bæjarfulltrúi í Garðabæ síðan 2014 og gegnt ýmsum trúnaðarstöðum tengdum því, en svo var ég varla kominn til vits og ára þegar ég var farinn að skipta mér að samfélaginu í gegnum nemendafélög og annað þess háttar. Þannig að ég hef – án þess að ég rifji upp aldur minn – verið í áratugi í alls kyns stússi við að gera þetta samfélag betra. Maður finnur að það kallar á mann, maður leitar í ræturnar.“

Líka í gegnum íþróttirnar, þær eru fyrirferðarmiklar í bænum.

„Já, Stjarnan er hluti af þessu og fleiri félög því Garðabær er stækkandi bær, ég nefni ungmennafélagið á Álftanesi, golfklúbbar, hestamannafélög og fleiri. Ég hef verið í því starfi og þekki kraftinn, sem er í þessum félögum, og nær út fyrir íþróttirnar. Ég vil nýta þessi félög vel til þess að gera samfélagið betra.

Það snýst mikið um aðstöðu, en einnig um verkaskiptingu. Bærinn hefur auðvitað ákveðna þjónustu og skyldur, en svo hverfist þetta líka um lífsgæði fyrir börnin og fjölskyldurnar, því við viljum auðvitað að krakkarnir séu í mannbætandi verkefnum. Ég held að við verðum á allt öðrum stað þarna eftir 5-10 ár en í dag, sem snertir einmitt verkaskiptingu frjálsra félaga og sveitarfélagsins, skynsamlegri tilhögun en ekki endilega kostnaðarauka, svo það sé sagt.“

Stækkandi bæjarfélag

Nú er Garðabær enn að stækka og öfugt við mörg önnur sveitarfélög í grenndinni á hann nægt byggingarland; ekki er það vandalaust?

„Nei og það er kannski tvíþætt umræða. Annars vegar á fjármálanótunum, því við eigum verðmætt byggingarland og höfum náð góðum árangri í að fá með okkur aðila í uppbyggingu. Þá skiptir máli að það fjármagn sem fellur til bæjarins fari annars vegar í innviði og hins vegar í að halda skuldahlutfalli bæjarins ásættanlegu og lágu, eins og okkur hefur tekist að gera.“

Og útsvarinu niðri?

„Já, auðvitað, að halda álögum lágum. Sem er kapítuli út af fyrir sig, manni heyrist á umræðunni síðustu daga að lágar álögur á íbúa séu nánast orðnar skammaryrði, en mér finnst það nú eitt af hlutverkum leiðtoga sjálfstæðismanna í Garðabæ að verja þá stöðu.

En það er sem sagt ærið verkefni að halda stöðugleika í fjármálunum og halda metnaði í að innviðauppbygging fylgi byggðaþróuninni, sem okkur hefur gengið mjög vel með. Svo er hin hliðin, sem er frekar skipulagsleg. Ef við horfum t.d. á Urriðaholt sem nýtt hverfi, þá er það með sín sérkenni sem eru mjög spennandi, þessi sjálfbæra mynd og annað þess háttar. Álftanes kemur til með öðrum hætti, en hefur líka sín sérkenni, sveit í borg og aðra ásýnd. Mér finnst þetta skipta máli þegar við förum í uppbyggingu í Vetrarmýri og Hnoðraholti, að hvert og eitt svæði í bænum hafi sín sérkenni, en með okkar sameiginlega brag, að innviðirnir og þjónustan vaxi jafnharðan með bænum, að fólk þurfi ekki að bíða þeirra.“

Virkir og kröfuharðir kjósendur

Þú minnist á ólík hverfi með ólík sérkenni. Kalla þau á ólíka nálgun af hálfu bæjarins?

„Nei, ekki svo. Þau hafa sín sérkenni, en það er okkar að viðhalda því, sem kalla mætti garðbæskt yfirbragð, þeim bæjarbrag sem hér hefur skapast og fólk vill viðhalda og leitar í. Mér finnst sá bæjarbragur vera sterkur og mér finnast íbúarnir í öllum hverfum bæjarins hafa sterka skoðun á honum og því sem gerir okkur að samfélagi.

Mér finnst gaman að fara út og hitta fólk, þó það sé nú erfiðara þessa dagana, og finna fyrir þessum mikla áhuga á okkar sameiginlegu verkefnum sem íbúar bæjarins. Fólk gerir raunverulegar kröfur til okkar og Garðbæingar eru virkir í því að búa og byggja betri bæ.

Það á við um bæði stórt og smátt, skipulagsmál jafnt og segjum leikskólamál, sem er ærið verkefni þegar bærinn stækkar hratt og við fáum alveg að heyra það milliliðalaust hvað brennur á fólki og ég held raunar að hinir sterka staða Sjálfstæðisflokksins felist í því að okkur hefur lánast að viðhalda þessu samtali.“

Bæjarfélag í þróun

Nú var Garðabæ löngum legið á hálsi fyrir að vera svefnhverfi, en er það ekki áhugavekjandi verkefni þegar það er að verða miklu meira bæjarfélag?

„Jú, og við getum verið stolt af því hvernig til hefur tekist og það vísar veginn fram á við. Maður sér hvernig alls konar þjónusta, sem maður hefði varla séð fyrir sér að gæti þrifist hér fyrir nokkrum árum, leitar nú í bæinn. En af því að við erum að vaxa hraðar en flestöll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þá sjáum við að bærinn hefur aðdráttarafl. Það er eftirsótt að flytjast í Garðabæ, bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Það er staða sem við viljum halda og af hverju er það? Jú, vegna þess að okkur hefur gengið vel við að reka góða þjónustu með hóflegum álögum, í takt við það sem fólk vill, þarfnast og væntir. Þetta skiptir venjulegt fólk máli.“

Þú nefnir að ungt fólk er að flytjast í Garðabæ, en fólk er líka að eldast.

„Jú, við höfum brugðist við því og það kallar á ýmsar breytingar á næstu árum. Við erum t.d. að fela félögum eldri borgara í bænum að sinna hreyfingu og verkefnum af þeim toga, þannig að bærinn kemur með framlög til félaganna, sem síðan útfæra þjónustu við borgarana. Ég bind miklar vonir við frekari breytingar í þessa veru á næstu árum, þar sem við leysum úr læðingi krafta í frjálsum félagasamtökum til þess að auka lífsgæði íbúanna. Það mun þá að líkindum minnka beina þjónustuþörf bæjarins í liðveislu og þess háttar, sem við erum að sinna gagnvart eldra fólki og öryrkjum. Það verða sennilega mestar breytingar í þjónustu til þessa fólks á næstu árum, bæði hjá sveitarfélögum og ríki, það er að fjölga í þessum hópum en á móti kemur að eldra fólk er almennt betur á sig komið en áður gerðist, hefur aðrar þarfir og kröfur en var. Í þessum efnum snýst þetta nefnilega ekki alltaf um að hið opinbera þurfi að veita þjónustu, heldur kannski ekki síður um umbreytingar, þar sem við spyrjum hvernig við getum haldið okkur virkum lengur, hvernig nýtumst við lengur og betur í þágu samfélagsins. Þarna er á ferðinni stór hópur, sem getur svo sannarlega látið til sín taka, miklu lengur en áður fyrr.“

Svo þarf að sinna ungviðinu, þú átt stóra fjölskyldu sjálfur og þekkir það væntanlega vel af eigin raun?

„Já það má segja að við höfum verið „ofurnotandi“ á þjónustu bæjarins undanfarin ár. Börnin okkar eru á breiðu aldursbili þannig að á tímabili áttum við leikskólabarn og börn á grunn-, framhaldsskóla- og háskólaaldri líka. Við þekkjum því vel þarfirnar. Við í Garðabæ búum að því að hafa mjög öflugt og metnaðarfullt fagfólk í skólum, leikskólum og tómstundastarfi. Við þurfum að hlúa að og bæta starfsumhverfi þeirra enn frekar. Það skilar sér vel til baka. Það er síðan mjög í anda Sjálfstæðisflokksins að í Garðabæ er frjálst val um skóla óháð hverfum, það fyrirkomulag hefur að mínu mati eflt faglegt starf í skólum.“

Garðabær nýtur þess að þar er nóg af útvistarsvæðum í túnfætinum og þau eru mikið notuð, gengur vel að láta það ríma við uppbygginguna?

„Það er rétt, þetta eru mikil gæði, nánast sérstaða, og við finnum að íbúar kalla eftir því að viðhalda þeim. Ég þekki það sjálfur, ég er mikill hlaupari, og ég held raunar að þetta sé hluti af samfélagsbreytingum okkar tíma, að fólk metur þessi lífsgæði miklu meira en áður. Það sést vel í Urriðaholtinu, þar sem margt fólk hefur sest að beinlínis með þetta fyrir augum, að hafa náttúrufegurðina í bakgarðinum og geta notið hennar með útivist af ýmsu tagi. Við höfum friðað stór svæði, en friðun þýðir ekki að við getum ekki nýtt þau og notið með stígum og öðru þess háttar.“

Samgöngumál í deiglu

Umræða um samgöngumálin hefur verið fyrirferðarmikil og hún snertir Garðbæinga talsvert, sem flestir vinna utan bæjarfélagið. Hvernig horfa þau við þér?

„Þessi mál eru í sífelldri þróun og hér í Garðabæ líka. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig okkur mun vegna í Vetrarmýri, sem verður blanda af atvinnuhúsnæði og íbúðahúsnæði. Við erum nýbúin að bjóða það út og sjáum að þar er mikil eftirspurn, sem ég held að eigi sér tvær orsakir. Í fyrsta lagi erum við að horfa upp á breytingar, fólk vill almennt vinna nær heimilinu en raunin hefur víða verið síðustu áratugi og að það sé að draga úr því að fólk fari niður í Miðborg eftir vinnu, að við fáum fleiri kjarna fyrir fólk að leita í. Í öðru lagi að það vill svo skemmtilega til að Vetrarmýrin og Hnoðraholtið, okkar uppbyggingarsvæði, eru miðsvæðið í þeim þéttbýliskjarna sem er höfuðborgarsvæðið.

Það hefur svo bein áhrif á samgöngumálin, sem aftur eru tvískipt. Við tökum þátt í svokallaðri borgarlínu, sem skiptir vissulega máli, en ég myndi nú frekar leggja áherslu á að við tökum þátt í Samgöngusáttmálanum. Hann snýst ekki aðeins um hraðar strætisvagnasamgöngur, heldur einnig að greiða úr þeim umferðaræðum, sem fyrir eru á höfuðborgarsvæðinu. Þar horfi ég helst á Hafnarfjarðarveginn, þar sem gert er ráð fyrir að komi stokkur síðar á þessum áratug. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Garðbæinga að af því verði. Því þó svo að veröld fjölskyldubílsins sé að þróast og breytast, þá er hún og verður um fyrirsjáanlega framtíð. Þess vegna verður þessi stokkur mikil lyftistöng fyrir okkur og mun skapa mjög áhugavert þróunarland.

Ekkert gefið í kosningum

Þú vilt leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Garðabæ, en hann hefur haft yfirburðastöðu þar lengi. Getið þið bætt einhverju við ykkur?

„Það er nú það,“ segir Almar og hlær. „Þegar við förum í kosningabaráttuna, þá njótum við vonandi fyrri verka og við höfum mjög sterka málefnastöðu, ég held það geti fáir neitað því. En vöxturinn í bænum kallar á tvenns konar áskoranir í pólitíkinni. Annars vegar að standa við stóru orðin um uppbygginguna og hins vegar að það hefur mikið af nýju fólki flust inn í bæinn, sem við þurfum að fá til liðs við okkur. Það er með stjórnmálin eins og fótboltann að það er 0:0 þegar leikurinn byrjar og það er ekkert gefið.

Íbúarnir hafa valið og valdið og við þurfum að tryggja að fólk sjái þann árangur sem við höfum náð, þá sýn sem við höfum á framtíðina og að það sé það, sem fólk vill treysta áfram.“

Guðrún og Almar eiga fimm börn, öll í Garðabænum. Fremstur …
Guðrún og Almar eiga fimm börn, öll í Garðabænum. Fremstur er Bjarni Ragnar og frá vinstri eru Fríða Margrét, tengdadóttirin Edda Mjöll, Guðrún, Tómas Orri, Almar, Alma Diljá og Baldur Freyr.
mbl.is