Vill ráðast í einkavæðingu ýmiss reksturs

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, situr fyrir svörum …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, situr fyrir svörum í Dagmálum. mbl.is/Ágúst Ólíver

„Við lítum ekki svo á að við séum í vinstri meirihluta, bara alls ekki. Við erum það hægrisinnuð meira að segja að Sanna í Sósíalistum getur ekki hugsað sér að fara í þennan meirihluta,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, spurð út í innkomu flokksins í borgarstjórn og meirihlutasamstarfið sem féll eftir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Þórdís Lóa er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum.

Ósammála Líf

Þórdís Lóa segir að þegar kom að því að mynda meirihluta eftir síðustu kosningar hafi verið um núverandi samstarf að ræða eða samstarf með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Þeirra hugsjón hafi frekar átt samleið með núverandi meirihluta.

Þórdís Lóa segir að hugmyndir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að Reykjavíkurborg stígi inn á húsnæðismarkaðinn hugnist sér ekki. „Við hefðum aldrei komið með svona tillögu og hún er mjög vinstrisinnuð í okkar huga.“ Spurð hvort hún geti útilokað að taka þátt í slíkri aðgerð segir Þórdís: „Við erum búin að læra það að útiloka ekki neitt, því að við erum alltaf að fara að vinna saman, en þetta er alls ekki eitthvað sem okkur hugnast. Við höfum miklu meiri trú á markaðnum en svo.

Vill selja malbikunarstöð

Mér finnst mjög óeðlilegt að Reykjavíkurborg eigi malbikunarstöð. Til langs tíma trúi ég því að hún verði seld og við munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum,“ segir Þórdís Lóa spurð hvort sala hennar hefði ekki átt að vera einfalt verkefni á kjörtímabilinu. Þórdís Lóa segir að það að finna stöðinni lóð hafi verið forsenda þess að hægt væri að ráðast í söluna.

Hún segir fleiri tækifæri í einkavæðingu fyrirtækja sem Reykjavíkurborg rekur í dag. „Þarna eru fleiri tækifæri, ég meina; bílastæðahúsin sem dæmi. Af hverju erum við að eiga þessi bílastæðahús?“ segir hún.

Leið ekki illa

Þórdís Lóa segir að sér hafi ekki liðið illa með að hafa þurft að svara fyrir braggamálið fræga aðeins skömmu eftir að hún hafði ritað undir meirihlutasáttmála. „Ég var nú bara akkúrat á þeim tíma starfandi borgarstjóri. Borgarstjóri fór í veikindaleyfi og ég var starfandi akkúrat þegar braggamálið var sem heitast.“ Þórdís segist hafa verið tilbúin að svara fyrir hvernig brugðist yrði við málinu en ekki hvernig það væri til komið. Í kjölfarið hafi verið ráðist í úttekt á málinu. „Það var enginn sem ætlaði sér neitt vont í þessu. Hlutirnir fengu bara að keyrast áfram án þess að eitthvað gripi inn í.“

Frítt í sex tíma

Viðreisn í borginni boðar niðurfellingu leikskólagjalda fyrir fimm ára börn í sex klukkutíma á dag. Viðreisn hefur ekki tekið undir áherslumál Vinstri-grænna um algjöra niðurfellingu leikskólagjalda í borginni. Þórdís Lóa segir að um fimm prósent fimm ára barna séu ekki í leikskóla og vísbendingar séu uppi um að kostnaðurinn standi í vegi fyrir því að börnin sæki leikskóla. Þá skýrist tímarnir sex á því að það sé sá tími sem virk kennsla fer fram hjá þessum aldurshópi í leikskólum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert