Fyrst kvenna bæjarstjóri á Ísafirði

Arna Lára Jónsdóttir sem brátt verður fyrsti kvenkyns bæjarstjóri Ísafjarðar.
Arna Lára Jónsdóttir sem brátt verður fyrsti kvenkyns bæjarstjóri Ísafjarðar. Ljósmynd/Aðsend

„Það tekur sinn tíma að ná jafnréttinu á Ísafirði,“ segir Arna Lára Jónsdóttir en hún verður bæjarstjóri á Ísafirði á komandi kjörtímabili, fyrst kvenna.

Arna segir það kannski ekki stórt skref að kona sitji í bæjarstjórasætinu. Það sé miklu frekar sjálfsagt skref.

Þá segist hún virkilega spennt fyrir komandi tímum. „Það eru bjartir tímar fram undan og það verður bara gaman að fá að fylgja þeim eftir,“ segir hún.

Arna Lára var bæjarstjóraefni Í-listans á Ísafirði en oddviti var Gylfi Ólafsson. Í-listinn felldi meirihlutann en hann mynduðu áður Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Að framboði Í-listans standa einstaklingar úr Samfylkingu, Viðreisn og Vinstri grænum, auk óháðra.

Sigurinn kom ekki á óvart

Velgengni listans kom Örnu ekki á óvart þó svo að sigurinn hafi hreint ekki verið öruggur að hennar sögn. „En við stefndum að þessu. Það var alveg þannig.“

Arna segir listann hafa verið skipaðan mjög frambærilegu fólki sem er virkt í samfélaginu og atvinnulífinu.

„Þetta voru öflugir einstaklingar á listanum sem að fólk treystir vel og ég held að það hafi skipt sköpum,“ segir Arna og bætir við:

„Það er búið að vera mikill óróleiki á kjörtímabilinu og ég held að fólk hafi verið svolítið að leita eftir festu og einhverju sem að það þekkir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert