Ósammála um það hvort Dagur eigi að leiða

Logi Einarsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru á öndverðum meiði …
Logi Einarsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru á öndverðum meiði um nýja forystu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og þingmaður flokksins, telur að Dagur B. Eggertsson flokksbróðir hans ætti að halda borgarstjóraembættinu, þrátt fyrir að meirihlutinn í borginni hafi fallið í kosningunum í gær. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingkona Sjálfstæðisflokksins, er ósammála því og telur að kjósendur hafi með atkvæðum sínum kallað eftir breytingum.

Þetta kom fram í viðtali við Áslaugu, Loga og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í gær og dróst fylgi bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Reykjavík saman síðan í síðustu kosningum árið 2018. Framsókn tók stökk í borginni og fór úr engum fulltrúum í fjóra. Vinstri græn héldu sínum eina fulltrúa þó að fylgið hafi dregist lítið eitt saman.

Katrín Jakobsdóttir hefði viljað sjá meira fylgi í borginni.
Katrín Jakobsdóttir hefði viljað sjá meira fylgi í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefði viljað uppskera meira á höfuðborgarsvæðinu

Katrín sagði að yfir landið hafi fulltrúum Vinstri grænna fjölgað frá síðustu kosningum.

„En auðvitað verður maður að setja það í það samhengi að það voru ekkert afskaplega margir fulltrúar fyrir,“ sagði Katrín.

„Auðvitað hefði ég viljað uppskera meira á höfuðborgarsvæðinu, það er ekki hægt að segja annað en það.“

Áslaug sagði að fáir flokkar hafi unnið mikinn sigur í kosningunum, fyrir utan Framsókn.

„Það sem meira er og mikilvægt er að meirihlutinn er fallinn í Reykjavík. Það er að gerast í annað sinn og það er auðvitað mjög skýr skilaboð um breytingar og ágætis árangur.“

Framsókn nær ekki einu sinni versta árangri Sjálfstæðisflokksins

Spurð hvort það hafi ekki verið Framsókn sem felldi meirihlutann svaraði Áslaug:

„Já, það er þannig. Það var krafa um breytingar. Framsókn er samt með sínum stærsta sigri ekki að ná versta árangri Sjálfstæðisflokksins.“

Logi sagði að það hafi verið afrek hjá Samfylkingunni að stýra borginni í 12 ár og ráðast „í gríðarlegar breytingar sem hafa breytt þessum bæ úr því að vera þorp í að vera evrópsk stórborg.“

Hann benti á að breytingarnar væru ekki allar í höfn og að sumar þeirra tækju áratugi. Logi vildi meina að niðurstaða kosninganna sé sú að fólk vilji feta sama stíg áfram en með öðrum formerkjum.

„En það er ekki rétt hjá Áslaugu að fólk hafi verið að heimta breytingar vegna þess að þeir flokkar sem hafa ráðist gegn borgarlínu, þéttingu byggðar [...] – Þeir voru ekki að ríða feitum hesti í þessum kosningum, hvorki Miðflokkur né Sjálfstæðisflokkur,“ sagði Logi sem telur ljóst að Dagur eigi að halda áfram að leiða borgina.  

Þessu svaraði Áslaug. „Samfylkingin er auðvitað ekki að ríða feitum hesti og þetta er annar meirihluti Dags sem er að falla.“

Hún benti á að Sjálfstæðisflokkurinn væri fylgjandi borgarlínu og sagði að það að meirihlutinn hafi fallið væri skýrt merki um að fólk vildi breytingar. Þá benti Logi á að meirihlutinn hefði oft fallið hjá Sjálfstæðismönnum og þá hefðu þeir leitað til nýrra flokka um samstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert