„Þeir gætu orðið fimm“

„Það hefur verið mjög farsælt að hafa fjóra flokka í …
„Það hefur verið mjög farsælt að hafa fjóra flokka í meirihlutasamstarfi og þeir gætu líka orðið fimm.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að bíða verði eftir síðustu tölum áður en hann slær því föstu hvort um sé að ræða tap fyrir flokkinn.

Samkvæmt fyrstu tölum tapar flokkurinn tveimur mönnum og er því meirihlutinn fallinn.

Aldrei sett úrslitakröfur um borgarstjórastólinn

Sérðu þér fært að sitja áfram sem borgarstjóri verði þetta niðurstaðan?

„Það veltur á niðurstöðum komandi meirihlutaviðræðna. Við vitum að borgarbúar kölluðu eftir því. Það voru meira en þriðjungur þeirra sem að vildu mig áfram sem borgarstjóra þannig það liggur fyrir.

En ég hef aldrei sett neinar úrslitakröfur í því, hvorki fyrr né síðar, í þeim viðræðum sem hafa leitt til þess að ég hafi orðið borgarstjóri. Þessi samtöl eru bara ekki hafin.

Af kosningavöku Samfylkingar.
Af kosningavöku Samfylkingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minnihlutanum hafi verið hafnað

Dagur segir að þrátt fyrir fall meirihlutans hafi þeim sem töluðu gegn honum á yfirstandandi kjörtímabili verið hafnað. 

„Það sem að kannski stendur upp úr í mínum huga er að flokkar sem að töluðu fyrir framtíðinni: töluðu fyrir samgöngusáttmála og ákveðnum skipulagsáherslum þeir eru að fá vel yfir 60 prósenta fylgi, á meðan flokkar sem voru hikandi í þessum efnum, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur, þau fá langt undir 30 prósent og var í raun hafnað,“ segir Dagur.

„Samfylkingin er auðvitað að koma sterk út úr borginni þó að meirihlutinn haldi ekki,“ segir Dagur og bætir við: 

„Það hefur verið mjög farsælt að hafa fjóra flokka í meirihlutasamstarfi og þeir gætu líka orðið fimm.“

Hann ítrekar þó að bíða skuli eftir lokatölum, enn séu ekki öll kurl komin til grafar.

Kalla þurfi mögulega aðra flokka að borðinu

Kemur til greina að sitja í meirihluta án þess að sitja sem borgarstjóri?

Við erum bara ekki komin þangað, við skulum sjá hvað setur,“ segir hann og bætir við:

„Verði þetta endanlegar tölur þá er ljóst að meirihlutinn heldur ekki áfram óbreyttur og þá þarf að kalla fleiri flokka að borðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert