Láðist að láta vita af blaðamannafundinum

Oddvitar Framsóknar, Pírata og Samfylkingar á fundinum.
Oddvitar Framsóknar, Pírata og Samfylkingar á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég skal bara taka þetta á mig,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, undir lok blaðamannafundar fjögurra oddvita í borgarstjórn í Grósku, þegar hópurinn var spurður hvort gleymst hefði að láta húsráðendur vita af fyrirhuguðum blaðamannafundi.

Segist hann hafa leitað til framkvæmdastjóra Vísindagarða og talið hópinn hafa verið með fullt leyfi til fundarins.

Bað hann um leið framkvæmdastjóra Grósku afsökunar, en sá hafði komið af fjöllum þegar fjölmiðlafólk bar að dyrum hússins og gerði sig til reiðu fyrir blaðamannafund.

Spennandi hlutir

Tók hann því næst fram að honum þætti dásamlegt að vera fyrir framan þennan græna og fallega vegg, í húsi sem væri í raun miðstöð íslenskrar og reykvískrar nýsköpunar.

„Ótrúlega margir spennandi hlutir að gerast, þar á meðal þetta,“ sagði Dagur.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, greip þá orðið og sagði að til skoðunar gæti komið, að salurinn yrði einhvers konar almenningstorg, þar sem fólk geti komið og haldið blaðamannafundi, þó ef til vill meira í gríni en af alvöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert