Ekki óskaríkisstjórn, Sigmundar Davíðs

Tilvonandi ríkisstjórn er ekki óskaríkisstjórn, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar  formanns Framsóknarflokksins sem ætlar þó að verja hana falli að uppfylltum þremur skilyrðum. Þau eru að koma atvinnulífinu í gang og koma til móts við skuldsett heimili eins og hinir flokkarnir hafa lýst yfir að þeir vilji gera.

Þá er það endurskoðun stjórnarskrár, sem er sameiginlegt áhugamál allra flokkanna. Aðferð framsóknarmanna er hinsvegar sú að setja á laggirnar sérstakt stjórnlagaþing með 63 þingmönnum sem starfi í sex til níu mánuði. Þetta skilyrði gæti reynst kreppustjórninni tilvonandi dýrt í framkvæmd en enginn verðmiði fylgir frumvarpi flokksins um þingið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að semja verði um hvernig þessum markmiðum verði náð en Framsóknarmenn geri sér grein fyrir því að málið verði ekki leyst á næstu þremur mánuðum. Hann segist vera opinn fyrir því að skoða aðrar leiðir við framkvæmdina.

Framsóknarmenn settu ekki skilyrði varðandi samkomulag um Icesave reikningana en Sigmundur Davíð hefur verið talsmaður þess að Íslendingar greiði ekki innstæðutryggingar Landsbankans án þess að málið verði útkljáð fyrir dómstólum. Hann segist ekki vænta þess að ríkisstjórn sem starfi í svo skamman tíma taki endanlega ákvörðun í því máli. Hann viti þó til þess að þetta sé rætt milli flokkanna í stjórnarmyndunarviðræðunum. Hann segir ljóst að það yrði erfitt eða ómögulegt að framfylgja öðrum markmiðum ef menn tækju á sig slíkar skuldbindingar.

mbl.is

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 21. september

Mánudaginn 20. september

Sunnudaginn 19. september

Laugardaginn 18. september

Föstudaginn 17. september

Fimmtudaginn 16. september